Lucky Luke contre Pinkerton
Lucky Luke contre Pinkerton (íslenska: Lukku Láki gegn Pinkerton) eftir franska teiknarann Achdé (Hervé Darmenton) og höfundana Tonino Benacquista og Daniel Pennac er 76. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 2010 og hefur ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
breytaDaldónarnir eru gripnir glóðvolgir við lestrarrán af fulltrúum Pinkerton einkaspæjarastofunnar undir forystu Allan Pinkerton. Fréttir af afrekum einkaspæjaranna breiðast hratt út og almannarómur er á því að Lukku Láki sé ekki lengur í fararbroddi í baráttunni gegn glæpum í Villta Vestrinu heldur Pinkerton og hans menn. Leiðir Lukku Láka og Pinkerton liggja saman þegar þeir klófesta bíræfna peningafalsara skammt frá bænum Red Point og Pinkerton býður Lukku Láka í heimsókn í höfuðstöðvar spæjarastofunnar. Lukku Láka líst þó mátulega vel á batteríið þegar hann sér að Pinkerton stundar umfangsmiklar persónunjósnir í nafni málstaðarins. Þegar Abraham Lincoln er kjörinn forseti Bandaríkjanna og Pinkerton verður hans hægri hönd eykur Pinkerton stofnunin mjög umsvif sín og öll fangelsi taka að fyllast af meintum afbrotamönnum.
Fróðleiksmolar
breyta- Sagan snýst að mestu leyti um Pinkerton einkaspæjarastofnunina sem komið var á fót í Bandaríkjunum árið 1850 af Allan Pinkerton (1819-1884). Fjallar bókin öðrum þræði um raunverulega atburði sem tengdust einkaspæjarastofunni, t.d. meint banatilræði við Abraham Lincoln bandaríkjaforseta í Baltimore árið 1861 sem stofan taldi sig hafa afstýrt.
- Sagan gerist á tímabilinu 1860-1861. Þátttaka Daldónanna í sögunni kemur því nokkuð á óvart þar sem ráða má af eldri bókum í bókaflokknum að fyrstu fundum þeirra og Lukku Láka hafi borið saman eftir að eldri frændur Daldónanna mættu örlögum sínum árið 1892. Sjá bækurnar Eldri Daldónar og Daldónar, ógn og skelfing Vestursins.
- Í bókinni má sjá bregða fyrir nokkrum kunningjum úr eldri bókum í seríunni, t.d. fulltrúunum Pínk og Púnk úr Jessi Jamm og Jæja, Harðhaus úr Fúlspýt á Fúlalæk og Núma niðurgangi útfararstjóra úr Heiðursverði Billa barnunga.
- Sérfræðingarnir á skrifstofu Pinkerton, sem uppgötva skröltormseitur í viskíglasi, eru skopstælingar á bandarísku sjónvarpsleikurunum David Caruso og Gary Dourdan sem gert hafa garðinn frægan í rannsóknarlögregluþáttunum CSI.
- Lukku Láki gegn Pinkerton er fyrsta bókin í seríunni sem er samin af Benacquista og Pennac. Skopmynd af þeim félögum er að finna í bókinni í gervi eftirlýstra byssubófa, Tony "Holly Money" Wellquist (Benacquista) og Dan Penbig "Wolf Eye" (Pennac).