Losunarheimild

Markaðsbundin nálgun notuð til að stjórna mengun

Losunarheimild er heimild til losunar tiltekins magns tiltekinna mengunarvalda á tilteknu tímabili. Verslun með losunarheimildir er aðferð til að takmarka mengun með því að nýta markaðsaðferðir og skapa hagræna hvata til að draga úr útblæstri mengunarvalda. Losunarheimildir eru dæmi um sveigjanlega umhverfislöggjöf, öfugt við staðla um bestu fáanlegu tækni eða opinber gjöld og styrki. Mörg ríki hafa tekið upp verslun með losunarheimildir, sérstaklega í samhengi við átak gegn loftslagsbreytingum.

Kolaorkuver í Þýskalandi. Losunarheimildir geta gert kolaorkuver að síðri kosti en önnur orkuver.

Losunarheimildir eru skilgreindar af einhverju yfirvaldi (oft ríkisstofnun) sem úthlutar eða selur heimildir fyrir tiltekið magn tiltekinna mengunarvalda yfir afmarkað tímabil. Aðilar sem stunda mengandi starfsemi eru þá skyldaðir til að kaupa losunarheimildir sem samsvara þeirri mengun sem þeir valda. Ef mengandi starfsemi vill auka losun mengandi efna verður hún að kaupa frekari heimildir af einhverjum sem er tilbúinn til að selja þær. Afleiður losunarheimilda er hægt að kaupa og selja á fjármálamörkuðum.

Í þessu kerfi fá aðilar í mengandi starfsemi sem geta dregið úr losun mengunarvalda hvata til að gera það, sem verður til þess að kostnaðurinn sem fellur á samfélagið verður lægstur mögulegur kostnaður. Með þessari aðferð er hugmyndin að gefa atvinnulífinu efnahagslega hvata til að draga úr losun, og auka nýsköpun og hagvöxt um leið.

Til eru virkir markaðir með losunarheimildir nokkurra loftmengunarvalda. Losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir eru oft kallaðar kolefniskredit. Eitt kolefniskredit jafngildir einu tonni af koltvíoxíðsígildi á einu ári[1]. Umfangsmesta verslunarkerfið með losunarheimildir er viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir þar sem verslað er með „Evrópusambandsheimildir“ (European Union Allowances eða EUA). Kína er með mjög umfangsmikið kerfi fyrir losunarheimildir. Sviss, Bretland og Kanada hafa einnig komið upp eigin kerfum. [2] Í Kaliforníu er verslað með „Kaliforníukolefnisheimildir“, á Nýja-Sjálandi með „Nýja-Sjálandseiningar“ og „Ástralíueiningar“ í Ástralíu. Acid Rain Program í Bandaríkjunum notast við markaðsaðferðir til að draga úr losun brennisteinsdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða sem valda súru regni.

Tilvísanir breyta

  1. Lög um loftslagsmál 70/2012.[1]
  2. https://icapcarbonaction.com/en/compare/43
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.