Livingston Football Club er skoskt knattspyrnufélag með aðsetur í bænum Livingston í Vestur-Lothian. Félagið var stofnað í Edinborg árið 1943 undir öðru nafni. Mestalla sögu sína hefur félagið barist í neðri deildunum en átti blómaskeið í upphafi 21. aldarinnar og varð deildarbikarmeistari árið 2004.

Félagið var stofnað sem Ferranti Amateurs sem starfsmannalið Ferranti-rafiðnaðarfyrirtækisins í Edinborg og keppti næstu áratugina í áhugamannadeildum á svæðinu. Nafninu var síðar breytt í Ferranti Thistle. Árið 1972 fékk félagið aðild að Skoska knattspyrnusambandinu sem veitti því þátttökurétt í skosku bikarkeppninni.

Árið 1974 losnaði sæti í skosku deildarkeppninni og föluðust stjórnendur Ferranti Thistle eftir því. Reglur deildarinnar heimiluðu þó ekki að lið væru nefnd í höfuðið á styrktaraðilum og var því ráðist í nafnasamkeppni þar sem heitið Meadowbank Thistle var ákveðið. Nafnið vísaði í hinn nýja heimavöll félagsins, Meadowbank Stadium, fjölnota íþróttaleikvang sem reistur hafði verið fyrir Samveldisleikana árið 1970.

Meadowbank Thistle varð þar með þriðja Edinborgarliðið í skosku deildarkeppninni, en baráttan reyndist erfið í skugga nágrannana Hearts og Hibernian. Meadowbank Thistle var hálfatvinnumannalið sem þvældist á milli annarar og þriðju efstu deildar og barðist í bökkum fjárhagslega. Árið 1995 féll félagið niður í nýstofnaða fjórðu efstu deild. Lýstu eigendurnir því þá yfir að gjaldþrot blasti við félaginu að óbreyttu. Í kjölfarið var það flutt um set til bæjarins Livingston og hóf þar keppni á glænýjum leikvangi, Almondvale Stadium og undir nýju nafni.

Hin nýju heimkynni reyndust vítamínsprauta fyrir félagið, auk þess sem efnaðir eigendur settu mikið fé í reksturinn. Livingston fór aftur upp um deild strax á fyrsta ári. Vorið 1999 komst liðið í næstefstu deild á ný og árið 2001 tryggði það sér úrvalsdeildarsæti í fyrsta sinn í sögunni. Á sínu fyrsta ári meðal þeirra bestu náði Livingston sínum besta árangri fyrr og síðar. Leiktíðina 2001-02 hafnaði liðið í þriðja sæti á eftir Celtic og Glasgow Rangers. Árangurinn veitti Livingston þátttökurétt í UEFA bikarnum árið eftir þar sem félagið féll úr keppni í 2. umferð.

Ekki tókst að fylgja eftir þessari góðu byrjun og tók Livingston að síga neðar í úrvalsdeildinni næstu árin. Þó vannst minnisstæður sigur á Hibernian í úrslitaleik deildarbikarsins veturinn 2003-04, sem telst eini meiriháttar titill félagsins.

Livingston féll úr deild þeirra bestu árið 2006 og við tóku mikil fjárhagsvandræði þar sem liðið var m.a. dæmt niður í fjórðu neðstu deild vegna brota á fjármálareglum. Var jafnvel rætt um að leggja félagið alfarið niður en því var þó afstýrt á síðustu stundu. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu náði Livingston að rétta úr kútnum á nú og komst aftur í úrvalsdeildina vorið 2018 og hefur leikið þar síðan. Árið 2021 komst Livingston í úrslit deildarbikarsins í annað sinn, en tapaði fyrir St. Johnstone.

Titlar

breyta
  • Skoski deildarbikarinn (1): 2003-04.