Les Humphries Singers
Les Humphries Singers var poppsveit sem á fyrri hluta áttunda áratugarins naut mikilla vinsælda víða í Evrópu. Hljómsveitin var með aðsetur í Vestur-Þýskalandi og var stofnuð af Les Humphries (1940-2007), sem hafði flutt til Hamborgar frá heimalandi sínu, Bretlandi. Ásamt Jimmy Bilsbury stofnaði hann hljómsveit sem flutti gospeltónlist, hippatónlist og glaðlega popptónlist með hressilegum sviðssetningum. Nokkuð stór hópur söngvara kom fram með hljómsveitinni, 10-15 á blómaskeiði hennar, og komu víða að.
Hljómsveitin starfaði á árunum 1969-1977, en það var ekki fyrr en árið 1970 sem verkefnið hófst fyrir alvöru. Á næstu árum átti sveitin smelli eins og „We are Goin' down Jordan“, „Mamma Loo“, „Mexico“, „Carnival“ og „Kansas City“. Vinsældir sveitarinnar fóru minnkandi eftir miðjan áratuginn og síðastu stóru tónleikarnir voru í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1976, þar sem þau fluttu lagið „Sing Sang Song“, sem náði aðeins 15. sæti.
Hljómsveitin leystist upp þegar Les Humphries yfirgaf Vestur-Þýskaland skyndilega af skattalegum ástæðum og flutti til London. Nokkrir meðlimir hennar náðu síðar góðum árangri í tónlistarheiminum, eins og Liz Mitchell sem varð lykilsöngkona í Boney M, Jürgen Drews sem átti farsælan sólóferil í Þýskalandi og John Lawton sem varð meðlimur Uriah Heep .
Hljómsveitin hefur nokkrum sinnum komið saman aftur og frá maí 2007 stofnuðu nokkrir af meðlimum hennar frá áttunda áratugnum hljómsveitina The Original Singers og fluttu mörg af lögum Les Humphries Singers auk nýs efnis og gospellaga. Meðal meðlima nýju sveitarinnar eru Jürgen Drews, Peggy Evres, Judy Archer og Tina Kemp-Werner.
Stofnandi hljómsveitarinnar, Les Humphries, lést á sjúkrahúsi í London 26. desember 2007.