Leoncie
Leoncie (réttu nafni Leoncia María Martin, fædd 19. mars 1953) er listamannsnafn indversk-íslenskrar söngkonu sem hefur stundum kallað sig „indversku prinsessuna“ (e. Indian Princess Leoncie) eða „Ískryddið“ (e. Icy Spicy Leoncie).[1] Hún er þekkt fyrir óvenjulega tónlist sína og tónlistarmyndbönd, og umdeildar yfirlýsingar í fjölmiðlum.
Tónlistarstíll Leonciar, „austurlenskt diskópopp leikið á skemmtara“[2], þykir óvenjulegur. Lög hennar eru ýmist á ensku eða íslensku og textinn er oft af kynferðislegum toga. Meðal þekktustu laga hennar eru Ást á pöbbnum, Enginn þríkantur hér, Gay World, og Wrestler. Hún á sér dyggan aðdáendahóp og tónlist hennar hefur náð ákveðinni költ-stöðu.
Leoncie er þekkt fyrir að fara mikinn í viðtölum við fjölmiðla, á Fésbókarsíðu sinni, og í athugasemdakerfum dagblaða. Hún hefur farið hörðum orðum um ýmsa listamenn, ríkisstofnanir og stjórnmálamenn, og endurtekið sakað landa sína um frændhygli, einelti, og kynþáttahatur.
Æviágrip
breytaLeoncie er fædd í Góa-héraðinu á miðvesturströnd Indlands. Hún er af indverskum og portúgölskum ættum, en Góa var portúgölsk nýlenda fram til 1961.[3] Móðurmál hennar er konkaní. Að eigin sögn stundaði hún nám við Trinity College of Music í Lundúnum og er með BA-gráðu í enskum bókmenntum.
Leoncie kom til Íslands árið 1982 eftir að hafa búið í Danmörku í 2 ár,[4] og starfaði hér sem skemmtikraftur í allnokkur ár. Hún kynntist fljótt eiginmanni sínum, Viktori Albertssyni, sem hefur verið umboðsmaður hennar og oft leikið í myndböndum hennar.
Árið 1997 fluttist hún aftur til Danmerkur.[3] Hún sneri aftur árið 2000 en flutti svo aftur út 2004 og ætlaði sér að öðlast frægð á Englandi.[5] Hún tók hún þátt í áheyrnarprufum fyrir X-factor í Bretlandi 2006. Árið 2012 sneri Leoncie aftur til Íslands og hélt tvenna tónleika fyrir fullu húsi.
Leoncie er kaþólsk.[6] Hún býr í Keflavík en hefur áður búið í Kópavogi og Sandgerði.
Plötur
breyta- My Icelandic Man (1985). Á plötuumslaginu er mynd af Leoncie og kraftlyftingamanninum Jóni Páli.
- Story from Brooklyn (1992)
- Love Message from Overseas (2001 eða 2003). Á plötunni er dúett með Páli Óskari.
- Sexy Loverboy (2002)
- Invisible Girl (2005)
- Radio Rapist-Wrestler (2005)
- Pukki Bollywood Baby (2008)
- Wild American Sherrif (2009)
- Dansaðu við Leoncie (2011)
- Gay World (2012)
- Mr. Lusty (2017)
Tilvísanir
breyta- ↑ „Icy Spicy Leoncie gefur út sína fimmtu plötu“, Mbl.is 1. nóvember 2003.
- ↑ Leoncie. Glatkistan, 2015.
- ↑ 3,0 3,1 Prinsessan opnar sig. DV, 28. september 2002.
- ↑ Myndarlegustu karlmenn sem ég hef hitt. Tíminn, 15 október 1982
- ↑ „Leoncie farin“, Mbl.is 30. mars 2004.
- ↑ „Enginn rænir Leoncie þrumunni“, Mbl.is 9. júní 2003.