Langsegl er segl sem liggur langsum eftir skipinu fremur en þvert á það (sbr. þversegl). Langsegl eru meðal annars öll stagsegl, bermúdasegl, gaffalsegl, loggortusegl, spritsegl og latnesk segl. Slík segl henta betur þegar siglt er upp í vindinn (krussað eða slagað) en þegar siglt er undan vindi. Nútíma kappsiglingaskútur (bermúdaslúppur) notast því við belgsegl til að nýta vindinn betur þegar haldið er undan.

Mynd af spritsegli á rómversku skipi frá 3. öld e.Kr..

Bermúdasegl og gaffalsegl eru fest að neðan á bómu sem sveiflast til þegar vent er.

Dæmi um skip sem aðeins eru búin langseglum eru t.d. slúppa (einmastra), gaflkæna (tvímastra) og skonnorta (fjölmastra). Barkskip eru að hluta með langsegl og að hluta með þversegl.