Lýðveldisflokkurinn

Lýðveldisflokkurinn var framboð til alþingiskosninganna 1953.

Lýðveldisflokkurinn – samtök frjálsra kjósenda var (hægri)klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum. Aðstandendur flokksins höfðu horn í­ sí­ðu Ólafs Thors, en töldu sig halda á lofti stefnumálum Jóns Þorlákssonar. Einn helsti forsprakkinn var raunar gamall viðskiptafélagi Jóns, Óskar Norðmann.

Lýðveldisflokkurinn bauð aðeins fram í þremur kjördæmum í þingkosningunum. Þá var flokkurinn með raðaðan landslista, einn framboða og var Ásgeir Ásgeirsson frá Fróðá efstur. Listabókstafurinn var E. Lýðveldismenn náðu ekki inn manni og urðu fyrir miklum vonbrigðum með úrslitin. Rúmlega 2 500 kusu flokkinn, þar af tæp 2 000 í Reykjavík. Þetta þýddi um 3,3% atkvæða á landsvísu.

Málgagn Lýðveldisflokksins var Varðberg, sem Egill Bjarnason gaf út á árunum 1952-55.

Lýðveldisflokkurinn tók jákvætt í hugmyndir Stjórnarskrárfélagsins sem þá starfaði – og vildi efna til sérstaks stjórnlagaþings og stórauka völd forseta.

Þrátt fyrir vonbrigðin í þingkosningunum stefndu Lýðveldismenn ótrauðir að framboði í sveitarstjórnarkosningum snemma árs 1954 – í þeirri vissu að fylgið í þingkosningunum hefði dugað fyrir bæjarfulltrúa. Ekkert varð þó úr því og virðist forystu Sjálfstæðisflokksins hafa tekist að mestu að lempa þessa gömlu félaga sína.