Lárentíus saga er íslensk biskupasaga, rituð á síðari hluta fjórtándu aldar. Sagan rekur ævi og störf Lárentíusar Kálfssonar, Hólabiskups, en í henni er einnig greint frá innlendum og erlendum merkisatburðum á ævitíma Lárentíusar. Sagan hefur því verið nefnd "sagnfræðileg ævisaga".[1] Hún er ein helsta heimildin um íslenska kirkjusögu á fjórtándu öld.

Söguþráður

breyta

Sagan rekur jöfnum höndum ævi Lárentíusar Kálfssonar og merkisatburði innanlands og utan, s.s. embættistökur og andlát páfa og konunga, sóttir, náttúruhamfarir, lagabreytingar og deilur íslenskra höfðingja við klerka. Frásögnin sveiflast þannig á milli ævisögu og annáls. Fyrir vikið eru atburðir sögunnar mjög vel tímasettir.

Uppvöxtur Framættir Lárentíusar eru raktar í upphafi sögu. Ömmubróðir hans er Þórarinn kaggi, prestur á Völlum í Svarfaðardal, mikill lærdómsmaður og velgjörðarmaður fátækra. Móðir Lárentíusar, Þorgríma, á ættir að rekja til Illuga prests, mannsins sem gaf eignarjörð sína undir biskupsstólinn á Hólum.

Þorgrímu dreymir draum þegar hún gengur með son sinn. Í draumnum leiðir maður nokkur hana upp að altari í kirkju og færir henni biskupslíkneski, pakkað inn í línklút. Barninu er vart hugað líf þegar það fæðist. Séra Þórarinn heitir á heilagan Lárentíus að hann skuli upp frá því fasta á messudegi hans, 10. ágúst, ef drengurinn lifir, en fæðinguna ber upp á þann dag. Barnið braggast og er skírt í höfuðið á dýrlingnum.

Lárentíus er settur í læri hjá Þórarni kagga, frænda sínum, ásamt fleiri skólapiltum. Einhverju sinni ærslast drengirnir svo mjög í kirkjunni að lausamunur flýgur úr hendi Lárentíusar í Maríulíkneski sem brotnar. Þegar séra Þórarinn kemst að þessu reiðist hann mjög og hótar að berja hinn barnunga frænda sinn daginn eftir. Lárentíus leggst á bæn um kvöldið og biður Maríu mey að þyrma sér. Daginn eftir kemur Þórarinn til hans og segir að jómfrúin hafi heimsótt sig í draumi og beðið sig að fyrirgefa drengnum.

Þórarinn kaggi og Kálfur, faðir Lárentíusar, deyja um svipað leyti. Lárentíus er settur til áframhaldandi náms hjá Jörundi Hólabiskup. Þar sýnir hann afburða námshæfileika og þykir fremstur meðal sinna jafnaldra. Klerkar á staðnum sjá að þarna fer biskupsefni og öfundast mjög við hann. Rúmlega tvítugur er Lárentíus vígður til prests.

Prestsverk og Noregsdvöl Á fyrstu embættisárum Lárentíusar geisa staðamál síðari. Sigurður Guðmundsson, bóndi í Lögmannshlíð, tekur jörðina að Möðruvöllum í Hörgárdal eignarnámi og þykist vera réttmætur erfingi hennar. Jörundi biskupi mislíkar gjörningurinn og bannfærir Sigurð. Lárentíus fær það hlutverk að birta Sigurði bannfæringarbréfið og hann les það upp í heyranda hljóði í messu á staðnum. Sigurður bóndi bregst illa við og hótar Lárentíusi öllu illu. Eftir það ríður Sigurður til Hóla með fjölmenni og ögrar Jörundi biskupi. Biskup dregur þá í land með allt saman og segir að Lárentíus hafi ekki farið eftir leiðbeiningum sínum. Jörundur og Sigurður sættast á að Sigurður fái að greiða hóflegt gjald til kirkjunnar og halda jörðinni. Lárentíusi líkar þessi framkoma biskups illa og atburðirnir eru undirrót sundurlyndis á milli þeirra.

Lárentíus heimsækir Skálholt og hittir biskupinn þar, Árna Þorláksson. Árni biskup hrífst mjög af hinum unga presti og skipar honum næst sér við borðhaldið. Árni hvetur Lárentíus að nema kirkjulög, því það eigi fyrir honum að liggja að standa í frekari deilum síðar á starfsævinni. Þeir skiljast með mikilli vináttu.

Lárentíus siglir frá Gásum til Noregs árið 1294. Í för með honum er Pétur af Eiði, embættismaður sem Eiríkur Magnússon Noregskonungur hafði sent til erindagjörða í Norðlendingafjórðungi. Lárentíus og Pétur ganga á fund konungs sem tekur sendimanni sínum vel. Pétur biður Lárentíus að skrifa fyrir sig bónorðsbréf til frænku Eiríks konungs, en konungur lofar að láta þar við innsigli sitt til marks um velþóknun sína á ráðahagnum. Lárentíus ritar bréfið á svo glæstri latínu að það vekur athygli konungs sem lætur kalla hann á sinn fund. Hann býður Lárentíusi að gerast þjónustumaður sinn en Lárentíus afþakkar því hann ætlar sér að fara pílagrímsför í Niðarós að gröf Ólafs helga. Það verður úr að Lárentíus kemur aftur til konungs að förinni lokinni og dvelst hjá honum um veturinn. Við hirð Eiríks konungs kynnist Lárentíus m.a. flæmskum manni, Þrándi fisiler, sem kann að útbúa púðursprengjur.

Lárentíus fer norður til Þrándheims á fund Jörundar erkibiskups sem þá stendur í miklum deilum við kórsbræður um réttindi og valdsvið. Með Jörundi er Jón flæmingi, hálærður klerkur sem styður biskupinn heilshugar í deilumálunum. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að Jón talar ekki norrænu og á því erfitt með að gera sig skiljanlegan fyrir alþýðu manna. Jörundur erkibiskup kemur Lárentíusi undir forsjá Jóns flæmingja og ráðleggur honum að helga sig því að lesa kirkjulög, rétt eins og Árni biskup hafði áður gert. Lárentíus lærir lög og gagnast erkibiskupi vel við að bera fram boð í deilunum við kórsbræður. Jörundur erkibiskup launar honum liðveisluna með því að veita honum embætti við Ólafskirkju í Niðarósi.

Jón flæmingi rembist við að læra norrænu en gengur illa. Lárentíus stríðir honum og er sögð gamansaga af því er hann kennir Jóni að heilsa fólki með orðunum "Fagnaðarlaus kompán!", í þeirri trú að um sé að ræða hlýlega kveðju.

Deilur við kórsbræður Deilur Jörundar erkibiskups við kórsbræður í Niðarós fara stigvaxandi. Meðal mótstöðumanna hans eru Eilífur (síðar eftirmaður Jörundar á erkibiskupsstóli), Sighvatur landi og Auðun rauður (síðar biskup á Hólum). Jörundur fær Lárentíus til að lesa bannfæringarbréf yfir þessum mönnum. Hann hlýðir því og hlýtur af því mikla óvild kórsbræðra sem leggja hann í einelti upp frá því. Svo harkaleg er framkoma þeirra að Jörundur hefur samband við nýkrýndan konung, Hákon hálegg Magnússon, og fær hann til að koma til Niðaróss og stilla til friðar. Áki, fylgdarmaður konungs, heldur innblásna ræðu og býður kórsbræðrum að hlýða erkibiskupi, að öðrum kosti sé norska kirkjan í hættu. Niðurstaðan er sú að kórsbræður láta af uppreisn sinni og biðjast afsökunar.

Eftirlitsferð til Íslands Lárentíus fer í eftirlitsferð til Íslands að boði erkibiskups. Hann hefur með sér ferðafélaga, predikarabróður að nafni Björn. Ekki er útskýrt nákvæmlega í sögunni hver markmið ferðarinnar voru en Magnús Stefánsson hefur getið þess til að Lárentíusi hafi verið ætlað að framfylgja samþykktum biskupaþings í Noregi sem fram fór 1306, enda var hvorugur íslensku biskupanna viðstaddur það.[2] Fljótlega kemur upp ósætti milli ferðafélaganna, Lárentíusar og Bjarnar. Björn gerir lítið úr Þorláki helga og tilbeiðslu Íslendinga í hans nafni, en Lárentíus mótmælir. Þegar þeir koma til Hóla býður Jörundur Hólabiskup Birni að dvelja hjá sér um veturinn en nefnir ekki einu sinni þann möguleika við Lárentíus að hann fái að dvelja þar líka.

Um veturinn verður atvik sem eykur á sundurþykki þeirra Lárentíusar og Jörundar Hólabiskup. Kona drukknar í á og eiginmaður hennar lætur útförina, með tilheyrandi tilbeiðslugjöfum, fara fram á Munkaþverá, þótt hin látna hafi tilheyrt prestakallinu að Bægisá. Lárentíus aðstoðar prestinn á Bægisá við að heimta tilbeiðsluféð, sem með lagalegum rétti tilheyrir Bægisá en ekki Munkaþverá. Jörundur Hólabiskup fer enn á svig við lögin og úrskurðar að Munkaþverárprestakall megi þrátt fyrir allt hljóta féð.

Höfundur og ritunartími

breyta

Síra Einar Hafliðason, prestur á Breiðabólsstað í Vesturhópi, er almennt talinn vera höfundur Lárentíus sögu. Þess er getið í fyrsta kafla sögunnar að höfundur hennar (sem er ekki nefndur á nafn) hafi verið vinur og trúnaðarmaður Lárentíusar biskups og jafnframt verið áminntur af biskupi, en hvort tveggja á við um Einar. Lögmannsannáll, sem er varðveittur í eiginhandarriti Einars Hafliðasonar og er sannanlega hans verk, er víða orðrétt samhljóða Lárentíus sögu. Af því má ráða að einn höfundur hafi samið bæði verkin.

Einar Hafliðason kemur fyrir sem persóna í Lárentíus sögu. Söguhöfundur hrósar honum aldrei beint, en er almennt óspar á hrós til þeirra manna sem næst stóðu Lárentíusi biskup. Þetta hefur þótt benda til þess að Einar sé höfundur sögunnar.

Sú kenning, að Einar Hafliðason væri höfundur Lárentíus sögu, var fyrst sett fram í Kirkjusögu Finns Jónssonar Skálholtsbiskups árið 1772. Rúmum hundrað árum síðar rökstuddi Guðbrandur Vigfússon kenninguna nánar í formála sínum að sögunni.[3] Guðbrandur taldi söguna vera ritaða eftir 1346, enda er á einum stað í sögunni vísað til setu Árna vaða í embætti erkibiskups, en hann tók við embætti það ár.[4]

Útgáfur sögunnar

breyta
  • 1847: Oldnorsk Læsebog, útg. P.A. Munch og C.R. Unger. Kristjanía. Úrval úr Lárentíus sögu (10.-19. kafli).
  • 1858: Laurentius saga Hólabiskups (eptir síra Einar Hafliðason). Biskupa sögur I, útg. Jón Sigurðsson og Guðbrandur Vigfússon. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  • 1890: The Life of Laurence Bishop of Hólar in Iceland (Laurentius saga) by Einar Hafliðason. Ensk þýðing eftir Oliver Elton. London: Rivingtons.
  • 1948: Laurentius saga. Byskupa sögur III: Hólabyskupar, útg. Guðni Jónsson.
  • 1969: Laurentius saga biskups. Rit Handritastofnunar Íslands III, útg. Árni Björnsson. Reykjavík: Handritastofnun Íslands.
  • 1982: Historien om biskop Laurentius på Holar. Dönsk þýðing eftir Jørgen Højgaard Jørgensen. Óðinsvéum: Odense Universitetsforlag.
  • 1998: Lárentíus saga. Biskupa sögur III. Íslenzk fornrit XVII, útg. Guðrún Ása Grímsdóttir.
  • 2001: Kirkeliv i nord før Svartedauden: Biskop Laurentius' Saga. Norsk þýðing eftir Kjell Arild Pollestad. Gjøvik: Cappelen.


Tilvísanir

breyta
  1. Guðrún Ása Grímsdóttir: "Formáli", Biskupa sögur III (1998), s. LXII
  2. Magnús Stefánsson: "Frá goðakirkju til biskupskirkju", Saga Íslands III, s. 229.
  3. Guðrún Ása Grímsdóttir: "Formáli", Biskupa sögur III (1998), s. LXV
  4. Biskupa sögur III (1998), s. 364