Kveldúlfur
- Gæti einnig átt við nafnið Kveldúlf.
Kveldúlfur hf. var íslenskt togaraútgerðarfélag sem var stofnað árið 1912. Stofnandi þess var Thor Jensen og synir hans, Thorsararnir, eins og þeir voru nefndir, en þeir voru einhverjir umsvifamestu athafna- og stjórnmálamenn á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar. Kveldúlfur var stærsta útgerðarfyrirtæki á Íslandi fram að seinni heimsstyrjöld og gerði út sjö togara þegar mest var. Eftir styrjöldina dró úr umsvifum þess, og fyrirtækið var aðeins með einn togara að síðustu. Kveldúlfur hf. var afskráð 1977.
Thor Jensen og fjórir elstu synir hans, Richard, Kjartan, Ólafur og Haukur, stofnuðu hlutafélagið Kveldúlf 22. mars 1912 en tilgangur þess var að stunda útgerð og flytja út fiskafurðir. Fyrsta árið átti Kveldúlfur einn togara en keypti og verkaði fisk frá öðrum skipum og flutti út til Kaupmannahafnar. Fyrirtækið rak saltfiskverkun í Reykjavík og nágrenni. Fyrirtækið stækkaði og keypti fleiri togara og byggði höfuðstöðvar við Skúlagötu 1914. Þar voru geymslur fyrir útgerðina, þvottahús og þurrkhús fyrir fisk og geymslupláss fyrir verkaðan fisk. Skrifstofur Kveldúlfs voru á neðri hæð. Kveldúlfur var eftir 1920 stærsti atvinnurekandi á Íslandi. Talið er að skipverjar á skipum félagsins hafi á tímabili verið 250 til 350 en landverkafólk sem starfaði við síldarsöltun og saltfiskvinnslu var miklu fleira. Bræðurnir Richard og Ólafur báru mesta ábyrgð á rekstri Kveldúlfs á þessum tíma, Richard stjórnaði fjármálum og erlendum samskiptum en Ólafur var andlit fyrirtækisins og málsvari. Ólafur varð formaður félags botnvörpueigenda 1918 og var kosinn á þing 1925.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Ólafur T hors III. starfsævin (vefur borgarskjalasafns)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. maí 2015. Sótt 6. maí 2015.