Nýsköpunartogari
Nýsköpunartogari er togari sem keyptur var til Íslands eftir seinni heimstyrjöldina að tilstuðlan þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og kölluð var Nýsköpunarstjórnin. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru skip við Ísland flest orðin gömul og nauðsynlegt að endurnýja fiskiskipaflotann. Ríkisstjórnin ákvað að kaupa nýja togara frá Bretlandi og pantaði 30 skip árið 1945 en síðan bættust við 4 skip sem einstaklingar keyptu. Fyrsti nýsköpunartogarinn Ingólfur Arnarson kom til Íslands 17. febrúar 1947. Nýsköpunartogarar urðu alls 42. Reykjavíkurbær keypti átta nýsköpunartogara. Bæjarútgerðin gerði út fimm þeirra.
Nýsköpunartogarar sem keyptir voru til Reykjavíkur:
- B.v. Hallveig Fróðadóttir RE 203
- B.v. Ingólfur Arnarson RE 201
- B.v. Jón Baldvinsson RE 208
- B.v. Jón Þorláksson RE 204
- B.v. Pétur Halldórsson RE 207
- B.v. Skúli Magnússon RE 202
- B.v. Þorkell máni RE 205
- B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 206.
Skuttogaravæðingu frestað
breytaÞegar leið að lokum seinni heimsstyrjaldar var staða þjóðarbúsins góð vegna mikils innstreymis gjaldeyris í ríkissjóð. Nýsköpunarstjórnin 1944-1947 var við völd.[1]
Ein leið sem valin var til nýsköpunar voru kaup á nýjum stórum togurum sem voru nefndir nýsköpunartogarar. Nýbyggingarráð[2] sá um kaupin og réði vali á skipum og búnaði í samráði við væntanlega eigendur. Nýbyggingaráð þetta var sett á laggirnar 1944–1945 og hafði það verkefni að afla gagna og fá glögga yfirsýn yfir atvinnuástand um land allt. Verkefni ráðsins var að leiðbeina og aðstoða við öflun atvinnutækja til byggðarlaga, sem sérstaka þörf höfðu fyrir þau. Ráðið hafði mikil völd enda fékk það röskan helming þess gjaldeyrisforða sem safnast hafði í stríðinu til ráðstöfunar.[2]
Nýbyggingaráð ákvað að kaupa olíukynta gufutogara, þó talið væri að díselvélar þyrftu umtalsvert minna eldsneyti. Ástæðan var sú að flestir tilvonandi kaupendur þekktu ekki til togara með díselvélum og töldu öruggara að kaupa tæki sem þeir þekktu. Stór hluti togaranna voru keyptir af bæjarútgerðum sem sumar höfðu enga reynslu af slíkri útgerð. Alls voru keyptir 42 togarar og fóru 15 þeirra til bæjarútgerða og 10 til útgerðafélaga. Aðrar útgerðir, sem höfðu reynslu keyptu 17 skip[3]. Rekstur margra skipanna gekk brösuglega enda lítil sem engin reynsla þeirra útgerðaraðila sem gerðu út. Illa gekk að manna togarana og ekki voru til fiskverkunarhús til að vinna aflann. Því náðist takmark nýsköpunar illa. Þá leiddi vöntun á vönum mönnum um borð í skipin til að fiskur skemmdist í lestum og ekki tókst að selja hann á mörkuðum.[4]
Bátagjaldeyriskerfið rýrði hlut togaranna
breytaAuk þessara skipa var eitt skip, Jörundur, byggt fyrir Guðmund Jörundsson útgerðarmann á Akureyri[5]. Skipið var 491 brútto tonn og var með díselvél og álborðum í lest sem auðveldaði vinnu lestarmanna, meðan togarar nýbyggingaráðs voru með tréborð sem tók langan tíma að þrífa. Það var eina skipið keypt á þessum árum sem var rekið með hagnaði. Um 1957 vildi Guðmundur byggja skuttogara, en á þessum tíma voru slík skip í undirbúningi í Þýskalandi og Bretlandi. Þess má einnig geta að Farmanna og fiskimannasambandið lagði til á þessum tíma að minnsta kosti tveir af þessum nýju togurum yrðu skuttogarar.[6] Öll vinna um borð í slíkum skipum er auðveldari og öruggari og þarf minni áhöfn. En íslenska sjávarútvegsráðuneytið hafnaði beiðninni. Ástæðan var íhaldssemi og tortryggni gagnvart þessari nýju tækni. Um svipað leyti var hins vegar ákveðið að byggja fimm stór skip, eitt fyrir Guðmund Jörundsson, Narfa [7], og skipin Maí, Víking, Frey og Sigurð. Í byrjun gekk útgerðin illa og var Freyr seldur og Sigurður var um tíma við bryggju.[8]
Áður en nýsköpunartogararnir komu til landsins lét stjórnin kaupa tugi báta frá Svíþjóð. Þá var einungis hægt að reka hluta árs meðan togara þoldu öll veður, Kostnaður við hvert landað tonn var mun hærri á bátunum en á mikið stærri togurum, því var tilhneiging til að nota tekjur af togurum til að niðurgreiða rekstur bátanna. [3]Af þeim sem voru skipstjórar á nýsköpunartogurum voru Auðunsbræður, sem svo voru kallaðir þekktastir. Sæmundur var elstur og var fyrsti skipstjóri Kaldbaks EA-1 frá 1947, Þorsteinn, Gunnar og Auðunn voru togaraskipstjórar í yfir 30 ár, Í viðtali við Sjómannablaðið Víking 2002 við þrjá þeirra var spurt um hvort þeir hafi orðið ríkir; „Aflasæld bræðranna var umtöluð og þóttu þeir manna fremstir á því sviði. Þá liggur beinast við að spyrja hvort þeir hafi orðið ríkir, menn sem stýrðu og öflugum togurum, kennda við nýsköpun, og fiskuðu þá fulla.„Nei, ekki aldeilis,” segja þeir. „Kerfið var nú þannig i þá daga að togarar fengu 30% lægra verð fyrir aflann en bátarnir, nema þegar selt var á mörkuðum erlendis því þá fékkst sama verð.”[9] Þetta var liður i stýringu stjórnvalda í gjaldeyrismálum, bátagjaldeyriskerfið var það kallað og var við lýði til ársins 1958.[10]
„Íslendingar fundu upp flotvörpuna og skuttogarana“
breytaAuðunn Auðunsson skipstjóri heldur því fram í viðtali við Tímann árið 1975[11], að Íslendingar hafi fundið upp flottrollið og skuttogarann. Hann er væntanlega að vísa til þegar Bjarni Ingimarsson skipstjóri á Úranusi reyndi þessa hugmynd að draga trollið ekki eftir botninum vorið 1951, að ná fiskinum þegar hann gengur upp í efri lög sjávar.[12] Hugmyndin kom að sögn frá framkvæmdastjóra útgerðar á Ísafirði í útfærslu blikksmiðs í Reykjavik. Andrés Gunnarson vélstjóri hafði þróað og kynnt hugmynd að skuttogara og lét byggja módel sem hefur verið til sýnis á Sjóminjasafninu.[13]
„Stóraukin afli í síldveiðum um og eftir 1960 stafaði að nokkru leyti af stærri síldargöngum en aðallega af stærri og betri skipum og tækninýjungum sem Íslendingar voru einna fyrstir til að færa sér í nyt. Þetta skipti sköpum því nú veiddist mest af síldinni djúpt í hafi úti fyrir Norðaustur- og Austurlandi. Skömmu áður var farið að taka Asdic síldarleitartækið í notkun og nú ruddi kraftblökkin sér til rúms. Með henni var hægt að kasta nótinni beint af síldveiðiskipinu og sparað það bæði tíma og vinnu. Frumkvæði Íslendinga á þessu sviði er viðurkennt alþjóðlega. [14]
Loksins skuttogarar
breytaFyrstu skuttogararnir komu notaðir til Eskifjarðar og Norðfjarðar 1970 og reyndust vel. Leiðarahöfundur Austurlands sem var málgagn Alþýðubandalagsins á Neskaupsstað gat vart leynt hrifningu sinni; „Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti því ætla að afkoma þeirra verði betri og sjómannalhlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks."[15]
Eftir þetta komst hreyfing á bylgju skipakaupa ekki ósvipað og þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir. Um áramótin 1978-1979 áttu Íslendingar 79 skuttogara.[16] Ef ráðuneytið hefði samþykkt ósk Guðmundar árið 1957 er líklegt að hætt hefði verið að kaupa og reka togara sem var erfitt að manna og voru hættulegir og mikill auður hefði skapast og færri sjómenn hefðu farist.
Heimildir
breytaTilvísanir
breyta- ↑ „Annað ráðuneyti Ólafs Thors“.
- ↑ 2,0 2,1 Sjá Helgi Skúli Kjartansson, Island á 20. öld", Sögufélagið 2002, bls.249 og ræðu Ingólfs Jónssonar á Alþingi „69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu“. Alþingi. Sótt 8 febrúar 2025.
- ↑ 3,0 3,1 Nýsköpunartogararnir - Sjómannablaðið Víkingur - 3. tölublað (01.09.2022) - Tímarit.is
- ↑ Jón Þ. Þór, Nýsköpunaröld, saga sjávarútvegs á Íslandi. III bindi 1939-1973, s 63-79
- ↑ Togarinn Jörundur. Ægir - 1-2. Tölublað (01.01.1949) - Tímarit.is
- ↑ Ályktanir frá sambandsþingi F.F.S.Í. Sjómannablaðið Víkingur. 1958. bls.241.
- ↑ Narfi glæsilegasti togarinn. Morgunblaðið. 20.apríl 1960. bls.3
- ↑ Þorleifur Óskarsson, Íslensk Togaraútgerð 1945-1970, 1991, s 176.
- ↑ Við vorum í bullandi samkeppni, hver með sitt skip. Sjómannablaðið Víkingur. 64. árgangur 2002.
- ↑ Morgunblaðið 19. júlí 1969, bls.19. „Uppbygging íslenskrar togaraútgerðar” Sjá einnig Helga Skúla Kjartansson ,,Ísland á 20. öld" Sögufélagið 2002, bls. 311 og 312
- ↑ „Íslendingar fundu upp flotvörpuna og skuttogarana, Tíminn 1.2.1975“.
- ↑ Síldveiðitilraunir Sjómannablaðið Víkingur 2.1.1957 bls.19
- ↑ „Kjartan J. Jóhannsson þingmaður Ísfirðinga i ræðu á Alþingi 6.3.1958“.
- ↑ Guðmundur Jónsson, Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 II, Smáþjóð á heimsmarkaði, 2017, s. 344
- ↑ Skuttogarar til Austfjarða. Austurland. 15. tölublað, bls. 1. 30. desember 1970.
- ↑ Hjalti (13. október 2017). „Hvað er skuttogari og hver var fyrsti íslenski skuttogarinn?“. SVN.