Kringlublaðið

Kringlublaðið er stakt skinnblað, skrifað á Íslandi um árið 1260. Blaðið er það eina sem hefur varðveist af handriti sem var nefnt Kringla og var í Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn, á lofti Þrenningarkirkju við Sívalaturn. Háskólabókasafnið brann árið 1728 með öllu sem í því var. Skömmu áður (1682) hafði Íslendingurinn Jón Eggertsson skrifað Kringlu upp fyrir Sænska fornfræðaráðið, og mun hafa tekið blaðið úr handritinu og farið með það til Svíþjóðar. Þar var það varðveitt í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi (Perg fol nr. 9, I), og vissi enginn úr hvaða handriti það var.

Framsíða Kringlublaðsins.
Baksíða Kringlublaðsins.

Kringla hafði að geyma konungsögur sem eru þekktar undir heitinu Heimskringla. Höfundur þeirra var skáldið og stjórnmálamaðurinn Snorri Sturluson (1178–1241).

Þegar Finnur Jónsson var að undirbúa Heimskringluútgáfu sína um 1894, fór hann til Stokkhólms til þess að skoða brot úr Heimskringluhandritum sem þar voru. Hann áttaði sig fljótt á því að eitt blaðið væri úr Kringlu, og gaf hann það út ljósprentað árið 1895. Áður var talið að handritið hefði allt brunnið 1728. Þetta eina blað gefur miklar upplýsingar um Kringlu, um stærð handritsins, aldur og rithönd, en sama hönd er á fleiri handritum sem varðveist hafa.

Karl 16. Gústaf Svíakonungur afhenti íslensku þjóðinni Kringlublaðið til eignar í opinberri heimsókn árið 1975 og skyldi það varðveitt í Landsbókasafni (Lbs. fragm. 82). Textinn á blaðinu er úr Ólafs sögu helga.

HeimildirBreyta

TengillBreyta