Klængskirkja
Klængskirkja var vegleg miðaldakirkja í Skálholti, sem Klængur Þorsteinsson biskup lét reisa skömmu eftir að hann tók við embætti Skálholtsbiskups 1152. Kirkjan var smíðuð úr tveimur skipsförmum af tilhöggnu timbri frá Noregi og kostaði sem samsvarar 1600 kúgildum. Kirkjan brann til grunna árið 1309 eftir að eldingu laust niður í hana.
Timbrið kom til Íslands á tveimur skipum í kringum árið 1158. Pétur Gunnarsson, rithöfundur, lýsir komu viðanna í bók sinni Leiðin til Rómar svo:
„Timburskipin leita hafnar hjá Eyrarbakka. [..] Stórviðirnir vega hátt í þrjú tonn hver. Það verður að bíða þess að snjórinn jafni út misfellur og harðfenni leggi rennisléttan flöt niður að Hvítá og frostið steypi samfleytt gólf þessa 20 kílómetra sem áin og byggingarefnið eiga samleið. Mannskapur úr Ölfusi og Flóa er kvaddur til með hross til burðar og naut til dráttar. Stóllinn leggur til skaflajárn. Það útheimtir fjögur naut að draga hvern stöpul, þeir eru 25 talsins, það gera eitt hundrað naut og jafn marga menn til taumhalds. Og þetta eru bara stöplarnir. Þegar farmurinn er allur kominn á hross eða aftan í naut og hver gripur með teymandi mann er líkast því að landið sé allt á iði.“ |