Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs

skóli á Suðurnesjum
(Endurbeint frá Keilir (menntastofnun))

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er menntafyrirtæki á Íslandi sem var stofnað vorið 2007. Aðsetur Keilis er í nokkrum byggingum á Ásbrú í Reykjanesbæ. Keilir skiptist í fjóra skóla með fjölbreytt námsframboð þar sem áhersla er á að laga sig að þörfum og kröfum nútímanemenda. Skólarnir eru Háskólabrú, Heilsuakademía, Flugakademía Íslands og Menntaskólinn á Ásbrú. Keilir hefur það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við Mennta- og barnamálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi.

Hjálmar Árnason, sem áður hafði verið skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þingmaður Framsóknarflokksins, var framkvæmdastjóri Keilis frá 2008 til 2019. Núverandi stjórnarformaður Keilis er Jón Björgvin Stefánsson. Framkvæmdastjóri Keilis er Nanna Kristjana Traustadóttir.

Skólarnir

breyta

Háskólabrú

breyta

Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi en vilja stefna á háskólanám eða styrkja sig á vinnumarkaði. Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Háskólabrú hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Fyrstu nemendur Háskólabrúar Keilis hófu nám haustið 2007. Haustið 2008 undirrituðu Keilir og Háskóli Íslands samning um að próf á Háskólabrú skyldu teljast sambærileg stúdentsprófi og veita inngöngu í tiltekin svið innan Háskóla Íslands. Þá hafa margir útskrifaðir nemendur einnig sótt nám í öðrum háskólum innan og utan Íslands, en eftir þeirra inntökuskilyrðum hverju sinni.

Heilsuakademía

breyta

Heilsuakademían býður upp á fjölbreytt nám sem tengist heilsu og heilsueflingu. Meðal námsframboðs Heilsuakademíu Keilis er einkaþjálfun, styrktarþjálfun, fótaaðgerðafræði auk námskeiða á borð við undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf læknadeildar Háskóla Íslands, ásamt vinnuverndarnámskeiðum.

Boðið hefur verið upp á nám í einkaþjálfun allt frá stofnun Keilis árið 2007. Námið naut mikilla vinsælda frá upphafi og er nú viðurkennt starfsnám á þriðja hæfniþrepi samkvæmt viðmiðum Mennta- og barnamálaráðuneytis. Nám í styrktarþjálfun íþróttafólks hefur verið í boði frá árinu 2015 og hefur náð að festa sig í sessi sem valmöguleiki fyrir þá sem hafa áhuga á þjálfun innan íþróttageirans.

Nám í fótaaðgerðfræði var tekið upp árið 2017 og er viðurkennt starfsnám á þriðja hæfniþrepi samkvæmt viðmiðum Mennta- og barnamálaráðuneytis. Fótaðgerðafræðingur er lögverndað starfsheiti og veitir embætti landlæknis útskrifuðum nemendum starfsleyfi.

Undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf læknadeildar Háskóla Íslands færðist yfir til Keilis árið 2018 eftir að hafa verið starfrækt frá árinu 2003. Námskeiðið hefur notið mikilla vinsælda meðal þeirra sem hyggja á nám í læknisfræði eða sjúkraþjálfun og hefur hefur nemendafjöldi talið nokkur hundruð á hverju ári.

Vinnuverndarskóli Íslands bættist við Heilsuakademíuna árið 2020. Þar eru í boði ýmis námskeið sem tengjast vinnuvernd, til dæmis námskeið sem veita réttindi til starfa á vinnuvélum.

Flugakademía Íslands

breyta

Flugakademía Íslands er flugskóli sem býður upp á fullkomnar kennsluvélar, flugherma og á þriðja hundrað flugnema.

Flugakademía Íslands býður uppá einkaflugnám, atvinnuflugnám, flugkennaranám ásamt fjölbreyttu úrvali námskeiða fyrir flugmenn. Námið tekur mið af samevrópskri námsskrá til útgáfu flugskírteina sem gefin er út af EASA - Flugöryggisstofnun Evrópu og er því kennt samkvæmt EASA Part-FCL stöðlum. Námið er samþykkt af Samgöngustofu og lýtur eftirliti þeirra.

Eftir áralangan taprekstur hætti Flugakademían störfum í september 2023. Hún var tekin til gjaldþrotaskipta í apríl 2024. Fjórtán starfsmönnum Keilis var í kjölfarið sagt upp störfum.[1]

Menntaskólinn á Ásbrú

breyta

Menntaskólinn á Ásbrú hefur frá árinu 2019 boðið nemendum að stunda nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Námið byggir á hagnýtum verkefnum og sterkum tengslum við atvinnulífið. Lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og góða vinnuaðstöðu. Námsframboð í MÁ er í stöðugri þróun og er í dag þar einnig starfrækt fjarnámshlaðborð með stökum framhaldsskólaáföngum sem kenndir eru í fjarnámi sem hægt er að taka hvenær sem er.

Tilvísanir

breyta
  1. Hermann Nökkvi Gunnarsson (10.4.2024). „Flugakademía Íslands gjaldþrota“. mbl.is.

Tengill

breyta