Kapellutóft er rúst af litlu húsi við austurbrún Kapelluhrauns nálægt Hafnarfirði. Rústin er í landi Þorbjarnarstaða sem er eyðibýli sem stóð nálægt Straumi. Tóftin er talin vera af kapellu frá kaþólskri tíð, eftir að hraunið rann á 12. öld.[1]

Saga breyta

Örnefnið Kapelluhraun er gamalt og hafði lengi verið bent á upphlaðna grjóthrúgu í því sem kapelluna áður en fyrst var grafið í hana árið 1950. Kapellunni fylgdu sagnir um að við hana væru grafnir einn eða fleiri danskir menn sem hefðu verið drepnir af Íslendingum og setja margar þeirra það í samaband við siðbreytinguna á 16. öld.[2]

Fornleifarannsókn breyta

Árin 1950 og 1954 var gerður uppgröftur í grjóthrúgunni og kom í ljós að þar hefði verið hús. Eitthvað hafði áður verið verið grafið í tóftina og m.a. mikið tekið úr austurveggnum. Tóftin reyndist vera 2,40 x 2,20 metrar að innanmáli, og veggirnir stóðu upp í 1,80 metra þar sem þeir voru hæstir. Í veggjum og gólfi voru flatar hraunhellur teknar úr næsta nágrenni kapellunnar.

Í gólfi kapellunar var mikið af ösku og kolum, sem bendir til að þar hafi fólk eldað eða ornað sér við eld. Auk þess fundust leirkerabrot, brot af rafperlu, látúnslauf, naglar og líkneski af heilagri Barböru. Við lok uppgraftar var reynt að ganga frá tóftinni í samt horf og fyrir rannsókn.[Kapellutóft og Kapellulág 1]

Heilög Barbara breyta

Sá fundur sem draga mátti hvað mestar ályktanir af var líkneski af kaþólska dýrlingnum heilagri Barböru,[3] en það var gert úr pípuleir (grágulum leirsteini). Aðeins fannst efri hluti hennar í þremur pörtum, og var líkneskið 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið nær 5,5 sm þegar það varí heilu lagi. Fígúran er máð, en heldur í vinstri hendi á turni, sem þessi dýrlingur er yfirleitt sýnd með. Kristján Eldjárn, sem stjórnaði rannsókninni, sá ekki ástæðu til þess að efast að tóftin hefði því verið kapella, en treysti sér ekki til að tímasetja notkun hennar. Hann taldi þó líklegt að kapellan hafi verið notuð af ferðafólki á alfaraleið frá Hafnarfirði suður með sjó.[Kapellutóft og Kapellulág 2]

Uppruni breyta

Síðari athuganir benda til að líkneskið hafi verið steypt í mót, en leir eins og sá sem það er gert úr finnst ekki á Norðurlöndum. Pípuleir var hinsvegar mikið notaður við leirkerasmíð í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og nærliggjandi löndum. Sú framleiðsla var mest í borginni Utrecht í Hollandi, en þar hefur fundist líkneski mjög líkt því sem fannst í Kapellutóft, og hefur það verið tímasett til seinni hluta 15. aldar.[4]

Túlkun breyta

Tóftin í Kapelluhrauni er önnur af tveimur vegakapellum sem rannsakaðar hafa verið á Íslandi. Hin er hjá Hrauni í Grindavík. Bænhús voru mjög algeng á Íslandi á miðöldum en þau stóðu yfirleitt heima við bæi og því eru þessar vegakapellur óvenjulegar. Tímasetning líkneskisins bendir til að kapellan hafi verið áningarstaður trúrækinna ferðamanna á 15. öld og kapellan getur ekki hafa verið byggð fyrir 1151 en þá er talið að Kapelluhraun (einnig nefnt Nýjahraun) hafi runnið.[5]

Endurbygging breyta

Á sjöunda áratug 20. aldar var kapellan endurhlaðin af kaþólskum mönnum í öðrum stíl en áður, auk þess sem fengið var leyfi til þess að koma fyrir helgimynd af heilagri Barböru.[6]

Friðlýsing og framtíðaráform breyta

Kapellutóftin stendur nú á hóli skammt norðan Reykjanesbrautar og hefur öllu svæðinu í kring verið umturnað. Samkvæmt Minjastofnun eru engin áform um frekari rannsóknir á tóftinni í ljósi áætlana um stækkun álversins í Straumsvík eða annarra framkvæmda á svæðinu. Rústirnar eru friðlýstar og því má ekki hreyfa við þeim samkvæmt lögum um menningarminjar.

Heimildir breyta

  • Árbók Ferðafélags Íslands 1936. Nágrenni Reykjavíkur.
  • Árni Helgason 1842, 'Lýsing Garðaprestakalls 1842.' Sýslulýsingar og sóknalýsingar (Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III), Reykjavík 1937-39, bls. 196-220.
  • Brynjúlfur Jónsson 1903, 'Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1903, 31-52.
  • Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989, 'Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins.' Jökull 38, 71-87.
  • Kristján Eldjárn 1957, 'Kapelluhraun og Kapellulág.' Árbók hins íslenzka fornelifafélags 1955-56, bls. 5-34.
  • Kristján Eldjárn 1963, 'Heilög Barbara mær og kapella hennar.' Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Reykjavík, bls. 88.
  • Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1983, 'Af heilagri Barböru og uppruna hennar.' Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1982, bls. 171-75.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason II. Ný útgáfa, Árni Böðvarsson & Bjarni Vilhjálmsson gáfu út, Reykjavík 1961.

Tilvísanir breyta

  1. Kristján Eldjárn (1955-1956): 10-11
  2. Kristján Eldjárn (1955-1956): 12-13
  1. Kristján Eldjárn (1955-56). „Kapelluhraun og Kapellulág“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags (54). Sótt 2014.
  2. Árni Helgason 1842; Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, 78; Brynjúlfur Jónsson 1903, 34; Árbók Ferðafélags Íslands 1936, 28
  3. „Saint Barbara“. Sótt 2014.
  4. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (1982). „Af heilagri Barböru og uppruna hennar“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags (79). Sótt 2014.
  5. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989
  6. Upplýsingar frá Minjastofnun Íslands