Kambsránið er rán sem framið var þann 9. febrúar árið 1827 á bænum Kambi í Flóa. Fjórir grímuklæddir menn réðust inn í bæinn og bundu bóndann Hjört Jónsson og húsfólk hans og brutu upp hirslur í leit að peningum. Þeir rændu um 1000 ríkisdölum.

Ræningarnir skildu eftir sig verksummerki m.a. skó, járnflein og vettling. Þuríður formaður á Stokkseyri taldi sig þekkja handbragðið á skónum og að för á járnfleininum pössuðu við steðja í eigu Jóns Geirmundssonar á Stéttum í Hraungerðishreppi. Vettlingur sem fannst í túninu á Kambi var talinn kominn frá Jóni Kolbeinssyni á Brú í Stokkseyrarhreppi. Grunur beindist einnig að bróður hans Hafliða.

Þessir menn játuðu og bentu á forsprakkann sem var Sigurður Gottsvinnsson á Leiðólfsstöðum. Í réttarhöldunum komst einnig upp um ýmis önnur þjófnaðarmál í Árnessýslu m.a. þjófnað úr Eyrarbakkaverslun og sauðaþjófnað. Málaferlin stóðu í tæpt ár og um 30 manns var stefnt fyrir rétt. Í febrúar 1828 kvað sýslumaður upp dóm sem áfrýjað var til Landsyfirréttar í Reykjavík og Hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Þar gekk dómur 1829 og voru ránsmennirnir fluttir til Kaupmannahafnar árið 1830.

Sigurður var dæmdur til hýðingar, brennimerkingar og ævilangs þrældóms í Kaupmannahöfn. Sigurður var í fangavistinni dæmdur til lífláts fyrir áverka sem hann veitti fangaverði og var hálshöggvinn árið 1834. Jón Geirmundsson var dæmdur til hýðingar og þrældóms ævilangt, Jón Kolbeinsson til 12 ára þrældóms og Hafliði til 8 ára. Þeir fengu sakauppgjöf frá konungi árið 1844.

Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skráði sögu af Þuríði formanni og Kambránsmönnum og kom hún fyrst út 1893.

Heimildir breyta