John Elliot Cairnes

John Elliot Cairnes (26. desember, 1823 - 8. júlí, 1875) var írskur hagfræðingur. Hann er iðulega talinn seinasti fulltrú klassíska skóla hagfræðinnar. Hann hélt uppi vörnum fyrir kenningar David Ricardo, og svaraði gagnrýni á grundvallarhugmyndir klassískrar hagfræði á borð við launasjóðinn (e. wages fund) og vinnugildiskenninguna.[1]

Æviágrip breyta

Cairnes fæddist í Castlebellingham, County Louth í Írlandi. Hann var sonur William Elliot Cairnes og Marianne Woolsey. Faðir hans var bruggari og eyddi Cairnes tíma sínum í brugghúsi föður síns á yngri árum. Faðir hans vildi að hann myndi taka við af sér sem bruggari. Eftir 6 ár í heimavistarskóla og einkakennslu frá presti í Chester fór John Cairnes gegn ráðum föður síns og hóf framhaldsnám.[2]

Cairnes lærði list í Trinity Collage í Dublin, þar fékk hann BA gráðu árið 1848 og síðan MA gráðu árið 1854. Hann byrjaði í lögfræðinámi en missti fljótt áhugann. Hann fékk hins vegar mikinn áhuga á hagfræði sem hann kenndi sér sjálfur.[3]

Þó hann væri að mestu sjálfmenntaður í hagfræði hóf hann árið 1856 störf sem prófessor í stjórnmálahagfræði við Trinity háskólann í Dublin. Hann starfaði þar að hluta til í 5 ár en árið 1959 var Cairnes ráðinn sem prófessor í lögfræði við Queen's College í Galway. Frá árinu 1866 til 1870 vann hann sem prófessor í stjórnmálahagfræði við University College í London.[3] Cairnes lét af störfum árið 1872 eftir að hann lenti í slysi við útreiðar með þeim afleiðingum að hann gerðist óvinnufær. Hann lést síðan þremur árum seinna í Blackheath nálægt London en hann skyldi eftir sig eiginkonu og þrjú börn. [2]

Framlög til hagfræði breyta

John Elliot Cairnes skrifaði mikið af bókum og setti fram hinar ýmsu hagfræðikenningar. Cairnes var af "klassíska" skólanum og því skrif hans í takt við það. Þónokkuð af verkum Cairnes voru svör við gagngrýni annarra hagfræðinga á klassíska skólanum. Cairnes skrifaði um samtímann og heimalandið út frá hagfræðilegum sjónarmiðum. Cairnes skrifaðist einnig mikið á við hagfræðinginn John Stuart Mill þar sem þeir skiptust á skoðunum.[4] Eitt af frægari verkum Cairnes er einmitt skrif hans um Launasjóðskenninguna sem kom fyrst fram hjá Mill.

Þrælahald breyta

Eitt af frægari verkum Cairnes er bókin The Slave power (1862). Í bókinni greindi Cairnes afleiðingar þrælahalds á efnahagsþróun, þá sérstaklega hvernig það flýtti fyrir jarðvegseyðingu, dró úr tækninýjungum og kæfði almennt viðskipti og efnahagsþróun. Bókin var skrifuð á meðan borgarastríðið í Bandaríkjunum stóð. Í bókinni varaði Cairnes breska stjórnmálamenn við því að standa með Suðurríkjunum sem börðust fyrir viðhaldi þrælahalds. Talið er að bókin hafi átt þónokkurn þátt í því að snúa áliti almennings í Bretlandi gegn suðurríkjunum.[5]

Írland breyta

Cairnes skrifaði einnig mikið um Írland og írsk málefni. Árið 1864 var grein eftir Cairnes birt í tímaritinu Edinburgh Review. Þetta var fyrsta ritverk hans um Írland sem var birt opinberlega. Sama ár hafði Cairnes lagt á ráðin um að skrifa þó nokkuð magn ritgerða um írska hagkerfið og það sem viðkemur stjórnmálum í landinu.[6]

Á þessum tíma var stór hluti vinnuaflsins á Írlandi landlausir landbúnaðarverkamenn og smábændur. Landeigendur leigðu þeim litla lóð þar sem þeir stunduðu búskap en í skiptum fyrir landið unnu þeir fyrir landeigandann. Vanaleg árleg vinnukvöð var um tvo hundruð dagar. Mikil fátækt einkenndi þennan hóp en rúmlega þrjár milljónir íbúa landsins bjuggu við þessar aðstæður.[7] Cairnes trúði því að eina leiðin til þess að bæta lífskjör væri að afnema þetta kerfi.[7] Lausnir sem hann sá fyrir sér voru meðal annars að úthluta smá landsvæði svo þessir bændur þyrftu ekki lengur að leigja, þróun atvinnustarfsemi utan landbúnaðar. Hann taldi einnig að áframhaldandi flutningur fólks úr landi væri nauðsynleg.[6] Skömmu áður hafði ríkt mikil hungursneyð á Írlandi, Hallærið mikla, sem hafi leitt til þess að margir höfðu flutt frá Írlandi í leit að betri lífskjörum.[7]

Launasjóðskenningin breyta

John Stuart Mill gaf út bók árið 1848 sem hét Principles of Political Economy en í bókinni var launasjóðskenningin. Sú kenning varð mjög fræg og eitt af verkum Cairnes var að halda uppi vörnum á kenningunni. Launasjóðskenningin hélt því fram að laun væru háð hlutfallslegu magni fjármagns sem væri til ráðstöfunar fyrir greiðslur starfsmanna og stærð vinnuafls. Laun hækka aðeins með aukningu fjármagns eða fækkun launafólks. Seinna komust hagfræðingar að þeirri niðurstöðu að samband fjármagns og launa væri flóknara en upphaflega var talið. Þetta er vegna þess að fjármagn á tilteknu ári er ekki endilega föst upphæð. Cairnes tókst vissulega að fjarlægja úr kenningunni margt sem hafði tilhneigingu til að hylja raunverulega merkingu kenningarinnar. Í bókinni “Some Leading Principles of Political Economy Newly Expounded” sem Cairnes skrifaði er farið yfir launasjóðskenninguna og umfjöllun sem styðst við þá kenningu. [8]

Samkvæmt kenningu John Stuart Mill um framleiðslukostnað í tengslum við verðmæti eru algildu þættir framleiðslukostnaðar laun vinnuafls og fjármagnstekjur. Þessari kenningu mótmælti Cairnes að laun geti talist sem framleiðslukostnaður. Í greiningu John Cairnes á framleiðslukostnaði í tengslum við verðmæti lítur hann á vinnu, áhættu og bindindi sem raunverulega framleiðslukostnaði og byggjast þeir á huglægum hugsunum. Cairnes taldi að laun hefði aðeins getað talist kostnaður vegna þess að allt vandamálið var meðhöndlað frá sjónarhorni kapítalisma. Nassau William Senior var með mjög líka greiningu og Cairnes en í þeirri greiningu taldi Senior framleiðsluþættina vera þá sömu eða vinnu, áhættu og bindindi. Greining John Cairnes er sögð vera betrumbætt greining á greiningu Nassau William Senior. [9]

Stjórnmálahagfræði breyta

Í bókinni „The Character and Logical Method of Political Economy“ leitast Cairnes við að svara þeirri almennu spurningu varðandi hver tilgangur og eðli stjórnmálahagfræðinnar er. Það var skoðun Cairnes að stjórnmálahagfræðin hafði orðið fyrir miklum afskiptum utanaðkomandi þátta, meðal annars hvernig horft er á viðfangsefnið út frá sjónarmiðum hagkvæmni og sanngirnis. Hins vegar taldi hann að stjórnmálahagfræðin myndi aldrei flokkast sem vísindagrein svo lengi sem tilgangur hennar væri að útskýra hvernig megi ná ákveðnum hagnýtum markmiðum. Hagfræðin ætti að vera eingöngu vísindaleg að mati Cairnes og svo hún gæti uppfyllt þau skylirði, þyrfti hún að standa gjörsamlega hlutlaus frá öðrum kerfum samfélagsins, líkt og efnafræðin stendur hlutlaus milli ólíkra þróana í hreinlætisbótum. Það var afleitt að tala um hagfræðina sem vísindagrein að mati Cairnes. Hann taldi nauðsynlegt að notast við tilraunir svo hægt væri að innleiða ýmsu kenningar, hins vegar taldi hann þær vera útilokaðar úr vopnabúri hagfræðingsins. Cairnes laggði þess í stað mikla áherslu á hvernig líta ætti á stjórnmálahagfræði sem tilgátuvísindi. Kenningarnar voru einungis jafn góðar og forsendurnar sem settar voru fyrir þeim. Niðurstöðurnar voru sannar svo lengi sem engar truflanir höfðu áhrif, ástand sem Cairnes sagði að ætti sjaldnast við í raunveruleikanum.[9]

Tilvísanir breyta

  1. „John Elliot Cairnes“. www.hetwebsite.net. Sótt 23. september 2022.
  2. 2,0 2,1 „Cairnes, John Elliot | Dictionary of Irish Biography“. www.dib.ie (enska). Sótt 23. september 2022.
  3. 3,0 3,1 „John Elliott Cairnes | British economist | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 23. september 2022.
  4. George O'Brien (1943). J. S. Mill and J. E. Cairnes. Economica, vol. 10, no. 40. bls. 273–85.
  5. „John Elliot Cairnes“. www.hetwebsite.net. Sótt 23. september 2022.
  6. 6,0 6,1 T. A. Boylan; T. P. Foley (1983). John Elliot Cairnes, John Stuart Mill and Ireland: some problems for political economy. Hermathena. bls. 96-119.
  7. 7,0 7,1 7,2 Reilly, Ciarán (6. ágúst 2020). „Hidden Ireland: The world of the cottier on the eve of the Famine“ (enska).
  8. 1831-1905., Longe, Francis Davy, (1934). A refutation of the wage-fund theory. Johns Hopkins Press. OCLC 10932070.
  9. 9,0 9,1 Alexander Grey (1931). The Development of Economic Doctrine. Longmans, Green and Co. bls. 285-292.