Johann Gottfried Jakob Hermann

(Endurbeint frá Johann Gottfried Hermann)

Johann Gottfried Jakob Hermann (28. nóvember 1772 í Leipzig í Þýskalandi31. desember 1848) var þýskur fornfræðingur og textafræðingur.

Johann Gottfried Jakob Hermann

Hermann hóf háskólanám við háskólann í Leipzig fjórtán ára gamall. Hann nam lögfræði en gaf hana fljótt upp á bátinn og las fornfræði í staðinn. Hann varð lektor í fornfræði við háskólann í Leipzig og prófessor extraordinarius í heimspeki árið 1798. Hann varð prófessor í mælskulist 1803 og í kveðskap 1809.

Hermann hélt því fram að haldgóð þekking á klassísku málunum forngrísku og latínu væri eina leiðin til þess að öðlast skilning á menningarlífi fornaldar og það væri meginmarkmið textafræðinnar.

Hermann einbeitti sér að klassískri bragfræði og gaf út nokkur rit um hana. Mikilvægust þeirra rita var Elementa doctrinae metricae (1816). Rit hans um málfræði forngrísku voru einnig áhrifamikil, einkum De emendanda ratione Graecae grammaticae (1801).

Hermann ritstýrði útgáfum á textum fornra höfunda, m.a. á nokkrum leikritum Evripídesar, Skýjunum eftir Aristófanes (1799), Trinummus eftir Plautus (1800), Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles (1802), hómerísku Sálmunum (1806) og Lexicon Fótíosar (1808). Útgáfa hans á ritum Æskýlosar kom út að honum látnum árið 1852.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.