Jean Valgard Claessen
Jean Valgard van Deurs Claessen (einnig þekktur sem Valgarð Claessen), f. 9. október 1850 var verslunarstjóri á Hofsósi, kaupmaður á Sauðárkróki og síðar landsféhirðir. Valgarð er ættfaðir Claessen ættarinnar á Íslandi.
Valgarð var giftur Kristínu Briem, dóttir Eggerts Briem sýslumanns, en saman áttu þau Arent Claessen, Eggert Claessen, Gunnlaug Claessen og Ingibjörgu Claessen.
Börn Valgarðs urðu öll stórtæk í mannlífinu á Íslandi. Eggert Claessen var einn af stofnendum Eimskipafélagsins, sat í stjórn og var formaður hennar í 25 ár. Hann var einnig aðalbankastjóri Íslandsbanka 1921–1930 en stundaði annars lögfræðistörf í Reykjavík. Hann var ásamt félaga Sveini Björnssyni, síðar forseta, helsti hvatamaður að stofnun Lögmannafélags Íslands og var oft formaður þess. Eggert og Sveinn fluttu fyrsta málið fyrir Hæstarétti gegn hvor öðrum. Hann gekkst fyrir stofnun Vinnuveitendasambands Íslands 1934 og var formaður þess til dauðadags.
Gunnlaugur Claessen var m.a. yfirlæknir en störf Gunnlaugs vöktu hvarvetna eftirtekt og virðingu og urðu margir til að minnast hans þegar hann féll frá af völdum lungnabólgu á grunni ættgengs astma í júlí 1948. Gunnlaugur Claessen varð aðeins 66 ára, sem ekki þykir hár aldur nú til dags, en á starfsævi sinni afrekaði hann meira en flestir aðrir og er ljóst að upphaf allrar myndgreiningar á Íslandi er falið í starfi þessa merka brautryðjanda í faginu.[1][2]
Arent Claessen var stórkaupmaður og umsvifamikill í viðskiptalífinu hérlendis á síðustu öld. Arent Claessen var meðal eiganda O. Johnson & Kaaber og gegndi stöðu forstjóra um hríð. Arent var ræðismaður Hollands á Íslandi.[3][4]
Ingibjörg Claessen var húsmóðir en giftist Jóni Þorlákssyni, stofnanda Sjálfstæðisflokksins.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Gunnlaugur Claessen“. www.mbl.is. Sótt 26. júní 2023.
- ↑ „Gunnlaugur Claessen - æviágrip“. Raförninn ehf. 4. janúar 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júní 2023. Sótt 26. júní 2023.
- ↑ „Arent Claessen, látinn“. www.mbl.is. Sótt 26. júní 2023.
- ↑ „Arent Claessen - viðbót“. www.mbl.is. Sótt 26. júní 2023.