Jameson-land
Jameson-land er stór skagi sem gengur inn í Scoresby-sund að norðanverðu. Jameson-land er stór rofslétta úr sandsteini frá Júratímabilinu sem hallar frá austri til vesturs. Vestan við Jameson-land er Hall-vík en austan megin skilja Hurry-fjörður og Carlsberg-fjörður það frá Liverpool-landi. Syðsti oddi skagans, við mynni Hurry-fjarðar, heitir Stewart-höfði. Þar eru kofar sem er viðhaldið sem sumarbyggð. Norðan við Jameson-land eru Stauning-alpar og Scoresby-land. Jameson-land er eina stóra undirlendið við Scoresby-sund og þar renna margar ár til sjávar á sumrin. Sléttan er fremur gróðursnauð en þar hafa fundist ummerki um mannabyggðir frá fornri tíð og horn af hreindýrum. Þar hafa líka fundist steingervingar frá síðtrías og árjúra.
Enski landkönnuðurinn William Scoresby nefndi skagann eftir skoska náttúrufræðingnum Robert Jameson.
Nerlerit Inaat-flugvöllur stendur á Jameson-landi við Hurry-fjörð.