Hurry-fjörður
Hurry-fjörður (grænlenska: Kangerterajiva „litli fjörður“) er mjór fjörður sem gengur norður úr Scoresby-sundi og skilur á milli Liverpool-lands í austri og Jameson-lands í vestri. Fjörðurinn er um 40 km langur og aðeins 7 km breiður. Á norðvesturströnd fjarðarins er Nerlerit Inaat-flugvöllur.
William Scoresby kortlagði fjörðinn fyrstur manna 1822 og nefndi hann eftir Nicholas Hurry, sem var eigandi skipsins hans, Baffin. Scoresby taldi að fjörðurinn gæti verið sund sem tengdist við Carlsberg-fjörð í norðri og að Liverpool-land væri eyja, en Carl Ryder afsannaði það í seinni leiðangri 1895.