Júbaland
Júbaland (sómalska: Jubbaland) eða Júbadalur (sómalska: Dooxada Jubba), áður Transjúba (ítalska: Oltre Giuba) er syðsti hluti Sómalíu handan Júbafljóts með landamæri að Kenýa. Íbúafjöldi svæðisins er áætlaður 1,3 milljónir. Svæðið nær yfir héruðin Gedo, Neðri-Júba og Mið-Júba. Aðalborgin er Kismayo á ströndinni við ósa Júbafljóts.
Eftir að Siad Barre forseta Sómalíu var steypt af stóli 1991 breiddist borgarastyrjöld smátt og smátt út um allt landið. 1993 lagði tengdasonur Barre, Mohammed Said Hersi, Kismayo undir sig með hersveitum sem héldu enn tryggð við Barre og ríkti yfir svæðinu sem herstjóri. Menn hans beittu íbúana kerfisbundnu ofbeldi, nauðguðu konum og rændu hjálpargögnum. 3. september 1998 var sjálfstæða ríkið Júbaland stofnað af fulltrúum Sómalska föðurlandsflokknum, undir stjórn Said Hersi, í samstarfi við Rahanweyn-andspyrnuherinn en þeir voru brátt reknir burt af Sómalska þjóðverðinum sem voru leifarnar af her Barres sem stefndu að endurreisn ríkisstjórnar hans. Ári síðar var þjóðvörðurinn rekinn burt af Júbadalsbandalaginu, bandalagi nokkurra ættflokka á svæðinu.
2001 gerðist Júbadalsbandalagið aðili að bráðabirgðastjórn sómalska sambandsríkisins.
Árið 2006 réðust herir Íslömsku dómstólanna inn í Júbaland og lögðu Kismayo og fleiri mikilvæga bæi undir sig. Júbadalsbandalagið dró sig í hlé, yfirleitt án andstöðu. Í desember, eftir ósigur dómstólanna gegn bráðabirgðastjórninni og hersveitum Eþíópíu í orrustunni við Baidoa, náði bandalagið Kismayo aftur á sitt vald.