Jón Ingimarsson
Jón Kristján Hólm Ingimarsson (f. á Akureyri 6. febrúar 1913, d. 15. febrúar 1981) var formaður Iðju, félags verksmiðjufólks um áratuga skeið og einn aðsópsmesti verkalýðsleiðtogi landsins. Hann starfaði einnig að ýmsum öðrum málefnum, jafnt á sviði stjórnmála og íþrótta á Akureyri.
Lífshlaup
breytaJón Ingimarsson var sonur Ingimars Jónssonar iðnverkamanns og Maríu Kristjánsdóttur. Hann ólst upp í Tóvinnuvélahúsinu, eða Gefjunarhúsinu, sem stóð í hallanum sunnan við Gefjunarverksmiðjuna á Akureyri. Faðir hans starfaði við verksmiðjuna meira en þrjátíu ár og Jón hóf sjálfur störf þar á táningsaldri og starfaði til ársins 1946. Eftir það varð verslunarmaður hjá Pöntunarfélagi verkalýðsins og síðar vörubílsstjóri. Árið 1954 hóf hann störf fyrir fulltrúaráð verkalýðsfélaganna og á Akureyri.
Afskipti Jóns af verkalýðsmálum hófust þegar hann var einn af stofnendum Iðju árið 1936. Hann var snemma kjörinn gjaldkeri og síðar ritari. Árið 1946 var hann svo kjörinn formaður félagsins og gegndi því til dauðadags 35 árum síðar.
Í stjórnmálum fylgdi Jón Sósíalistum og síðar Alþýðubandalaginu að málum. Hann var lengi viðloðandi bæjarmálin á Akureyri, bæði sem aðal- og varamaður í bæjarstjórn.
Jón var virkur í starfsemi skákhreyfingarinnar og sat um tíð í stjórn Skáksambands Íslands. Hann var einnig liðtækur áhugaleikari og starfaði mikið að leiklistarmálum.