Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Jóhann Friðgeir Valdimarsson er íslenskur tenór, fæddur í Reykjavík þann 12. desember 1967. Hann hóf ungur tónlistarnám og lærði á píanó og trompet í Tónmenntaskólanum og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Söngferil sinn hóf hann árið 1995 í Söngskólanum í Reykjavík hjá Garðari Cortes. Hann nam síðar hjá Magnúsi Jónssyni, Bergþóri Pálssyni og Þuríði Pálsdóttur og lauk 8. stigs prófi vorið 1998. Sama ár fór hann til náms í Mílanó hjá prófessor Giovanna Canetti, yfirkennara hjá Conservatori Giuseppi Verdi. Hann sótti líka einkatíma hjá M. Angelo Bertacchi í Modena og M. Franco Ghitti í Brescia. Jóhann Friðgeir hefur sungið fjölda einsöngstónleika á meginlandi Evrópu og Íslandi þar sem hann hefur ávallt fengið framúrskarandi viðtökur og dóma.
Jóhann Friðgeir hefur gefið út þrjá hljómdiska frá árunum 2001, 2002 og 2006. Fjórði og nýjasti geisladiskur Jóhanns Friðgeirs, Sacred Arias var síðan gefinn út í nóvember 2010. Jóhann hefur síðustu ár sungið með Frostrósum ásamt því að vera stofnandi og einn af íslensku "Tenórunum þremur".
Jóhann Friðgeir hefur sungið mörg aðalhlutverk óperubókmenntanna bæði hér heima, víða í Evrópu og Bandaríkjunum eins og Alfredo í La Traviata, Macduff í Macbeth, Hertogann í Rigoletto, Don Carlo í Don Carlo, Manrico í Il Trovatore, Ismaele í Nabucco og Radames í Aidu eftir Verdi. Cavaradossi í Toscu og Pinkerton í Madama Butterfly eftir Puccini. Turiddu í Cavalleria Rusticana eftir Mascagni, Canio í Pagliacci eftir Leoncavallo og t.d. Dmitri/Grigorij í Boris Godunov eftir Mussorgsky ásamt miklum fjölda sálumessa.