Ingigerður Birgisdóttir

Ingigerður Birgisdóttir (um 1180 – eftir 1210) var sænsk hefðarkona á 13. öld og drottning Svíþjóðar frá 1200 þar til manni hennar, Sörkvi yngri, var steypt af stóli árið 1208.

Skjaldarmerki Bjälbo-ættar.

Ingigerður var af Bjälbo-ætt, dóttir Birgis jarls Brosa og konu hans Brígiðu Haraldsdóttur, sem var dóttir Haraldar gilla Noregskonungs og hafði áður verið gift Magnúsi Hinrikssyni Svíakonungi. Ingigerður giftist Sörkvi konungi árið 1200 eftir að Benedikta Ebbadóttir, fyrri kona hans, lést. Faðir hennar var annar valdamesti maður Svíþjóðar en þegar hann lést 1202 lýsti gerði Sörkvir konungur ársgamlan son þeirra Ingigerðar, Jóhann, að jarli í hans stað og lýsti hann höfuð Bjälbo-ættar.

Árið 1204 kom til deilna milli konungsins og ættingja Ingigerðar og eftir að þrír synir Knúts Eiríkssonar Svíakonungs féllu í bardaga við menn Sörkvis konungs í orrustunni við Älgarås varð fullkominn fjandskapur þar á milli. Ingigerður reyndi að sætta mann sinn og ætt sína en það tókst ekki. Sörkvi var steypt af stóli 1208 og árið 1210 féll hann í orrustunni við Gestilren, þegar hann reyndi að ná völdum að nýju.

Ekkert er vitað um ævi Ingigerðar eftir það og óvíst er hvenær hún dó þótt ártalið 1230 hafi verið nefnt. Jóhann sonur hennar varð konungur 1216 en hann dó 1222.

Heimildir

breyta