Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum

Skáldsaga frá 1929 eftir Erich Maria Remarque
(Endurbeint frá Im Westen nichts Neues)

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum (þýska: Im Westen nichts Neues) er skáldsaga eftir Erich Maria Remarque, sem barðist með þýska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni. Bókin lýsir líkamlegum og sálrænum þjáningum þýskra hermanna á styrjaldartímanum ásamt fjarlægð þeirra frá borgaralegu samfélagi eftir að þeir snúa heim frá vígstöðvunum.

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum
Kápa fyrstu útgáfu bókarinnar.
HöfundurErich Maria Remarque
Upprunalegur titillIm Westen nichts Neues
ÞýðandiBjörn Franzson (1930)
LandFáni Þýskalands Þýskaland
TungumálÞýska
StefnurStríðsskáldsaga
ÚtgefandiPropyläen Verlag
Útgáfudagur
29. janúar 1929
FramhaldVér héldum heim 

Skáldsagan birtist fyrst í nóvember og desember 1928 í þýska fréttablaðinu Vossische Zeitung og var síðan birt í bókarformi seint í janúar 1929. Bókin og framhald hennar, Vér héldum heim (1930), voru bannaðar og brenndar í bókabrennum á tíma Þýskalands nasismans. Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum seldist í 2,5 milljónum eintaka á 22 tungumálum fyrstu 18 mánuðina eftir að hún var prentuð.[1]

Þrjár kvikmyndir hafa verið gerðar eftir bókinni og hlutu allar góðar viðtökur. Bandarísk kvikmynd byggð á bókinni kom út í leikstjórn Lewis Milestone árið 1930 og vann til tvennra Óskarsverðlauna. Bresk-bandarísk sjónvarpsmynd í leikstjórn Delberts Mann kom út árið 1979 og vann bæði til Golden Globe-verðlauna og Emmy-verðlauna. Loks kom út þýsk kvikmyndaútfærsla sögunnar árið 2022 í leikstjórn Edwards Berger sem vann til fernra Óskarsverðlauna.

Söguþráður

breyta

Sögumaður bókarinnar er ungur hermaður að nafni Páll Bäumer (Paul Bäumer á frummálinu). Þegar sagan hefst er Páll, ásamt hermanni að nafni Müller, að heimsækja vin sinn sem hefur særst í bardaga. Þeir þrír höfðu, ásamt sautján öðrum, boðið sig fram til herþjónustu stuttu eftir upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar vegna hvatninga frá kennara sínum, Kantorek. Ólíkt mörgum stríðssögum leggur bókin ekki áherslu á frásagnir af hetjudáðum og hugdirfsku, heldur er hún raunsæ lýsing á ömurlegum aðstæðum hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Sérhver dagur einkennist af stöðugum sprengjuárásum, matarleit, og tilviljanakenndri skiptingu milli þeirra sem lifa og þeirra sem deyja. Öllu þessu er lýst í smáatriðum. Remarque lýsir eftirlifandi hermönnunum gjarnan sem tilfinningalega dauðum, gömlum og köldum:

 
Vér erum ekki lengur æskumenn. Nú er það ekki lengur hugsjón vor að sigra heiminn í einu áhlaupi. Vér erum flýjandi menn. Vér flýjum sjálfa oss, flýjum lífið. Vér vorum átján ára, og oss var farið að þykja vænt um heiminn og lífið, en vér vorum neyddir til að skjóta á það.[2]
 

Páll fær orlof frá herþjónustunni með reglubundnu millibili og fær því leyfi til að snúa heim um stundarsakir. Hann á erfitt með að skilja fólkið á heimaslóðum sínum. Á meðan dátarnir á vígstöðvunum óska einskis heitar en friðar og skilja að Þýskaland er að tapa stríðinu tala óbreyttir borgarar heima fyrir saman um að brátt muni herinn hertaka París.

Helsti boðskapur bókarinnar er sá að stríðið sé með öllu tilgangslaust og sóun á mannslífum. Enginn hermannanna hefur nokkurn tímann hitt Frakka áður en stríðið hófst og hefur enn síður haft ástæðu til að drepa þá. Sumir dátarnir velta fyrir sér hvernig stríðið hófst, í hverra þágu sé verið að berjast og hver græði á stríðinu. Enginn hefur svar við þessu.

Annar boðskapur bókarinnar gengur út á hver skelfilegt stríðið er. Páll lýsir viðurstyggð stríðsins í frásögn sinni út alla skáldsöguna. Skotgrafirnar og víggirðingarnar eru ávallt þaktar tómum skothylkjum; eiturgas leggst eins og teppi yfir allan vígvöllinn; leyniskyttur skjóta á alla sem reka höfuðið yfir barm skotgrafanna. Undir lok bókarinnar hefja Frakkar áhlaup og brjóta vígstöðvar Þjóðverja á bak aftur. Á síðustu síðu bókarinnar er Páll sjálfur drepinn en dauði hans áorkar engu hernaðarlega séð. Í skýrslu hersins um daginn sem Páll er veginn stendur einfaldlega: „Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum“.

Tilvísanir

breyta
  1. Eksteins, Modris (apríl 1980). „All Quiet on the Western Front and the Fate of a War“. Journal of Contemporary History. SAGE Publications. 15 (2): 353. doi:10.1177/002200948001500207. S2CID 159998295.
  2. Erich Maria Remarque (1974). Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Þýðing eftir Björn Franzson (2. útgáfa). Reykjavík: Víkurútgáfan. bls. 54.