Alþjóðlega menntunarflokkunin

alþjóðlegt, samræmt flokkunarkerfi UNESCO á mismunandi skólastigum
(Endurbeint frá ISCED)

Alþjóðlega menntunarflokkunin (ISCED) er tölfræðirammi til að skipuleggja, samræma og flokka upplýsingar um skólastig og skólakerfi heimsins. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) heldur utan um flokkunina. ISCED er hluti af alþjóðlegu flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna á efnahag og félagslegum aðstæðum aðildarríkjanna.

Skólastúlkur af þjóðernishópi Pastúna í Bamozai, nálægt Gardez, höfuðstað Paktia-héraðs í Afganistan árið 2007. Engin var skólabyggingin og kennsla fór fram utandyra í skugga aldingarðs. - Hætt er við að menntamöguleikar þessar stúlkna hafi tekið breytingum með valdatöku Talibana 2021.
Skólastúlkur af þjóðernishópi Pastúna í Bamozai, nálægt Gardez, höfuðstað Paktia-héraðs í Afganistan árið 2007. Engin var skólabyggingin og kennsla fór fram utandyra í skugga aldingarðs. - Hætt er við að menntamöguleikar þessar stúlkna hafi tekið breytingum við valdatöku Talibana 2021.
Enskukennsla Yucai skólanum í Chongqing, í Sesúan héraði Kína árið 2015.
Enskukennsla í Yucai skólanum í Chongqing borg, í Sesúan héraði, Kína árið 2015.
Íslenskt merki sjálfbærnimarkmiðs Sameinuðu þjóðanna númer 4. „Menntun fyrir alla“
Fjórða sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna: „Menntun fyrir alla“, kallar á samræmda flokkun menntunar í ólíkum ríkjum heims.
Lúðrasveit Harvard háskóla og fyrrum nemendur háskólans fagna 100 ára afmæli sveitarinnar árið 2019.
Lúðrasveit Harvard háskóla árið 2019.
Kennsla í bæjarfélaginu Ziway, í Oromia héraði Eþíópíu árið 2014
Kennsla í bæjarfélaginu Ziway, í Oromia héraði Eþíópíu árið 2014.
Bekkjarmyndataka í Marunouchi hverfi Tókýó borgar, Japan árið 2019
Bekkjarmyndataka í Marunouchi hverfi Tókýó borgar, Japan árið 2019.

Almennt

breyta

ISCED (á ensku: „International Standard Classification of Education“) er viðurkenndur opinber rammi sem notaður er til að auðvelda þennan alþjóðlega samanburð á menntakerfum.

Flokkunarkerfið var fyrst þróað árið 1976 af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og hefur verið endurskoðað tvisvar, fyrst árið 1997 og aftur 2011.

Afhverju samræmd alþjóðleg flokkun?

breyta

Lengd og innihald menntunarstiga er mjög mismunandi eftir löndum. Það getur leitt til þessa að erfitt er að bera saman tölfræði um menntun milli landa. Vilji menn ná sameiginlegum markmiðum sem ríki heims hafa sameinast um, þarf samræmda tölfræði og flokkun á stöðu menntunar.

Árið 2015 samþykktu öll aðildarríki Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 17 Sjálfbærnimarkmið SÞ. Þessi „heimsmarkmið“ eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Eitt þessara markmiða, það fjórða, fjallar um menntun og ber yfirskriftina „Menntun fyrir alla“. Þar ætla ríki heims að „tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.“[1] Aðildarríkin skuldbundu sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu þessa bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Það liggur í hlutarins eðli að þetta starf kallar á samræmda tölfræði og flokkun á stöðu menntunar í ríkjum heims.

Flokkunin

breyta

ISCED byggir á tveimur meginflokkunarleiðum sem eru innbyrðis sjálfstæðar en saman segja til bæði um stig náms og menntunar, eftir stöðu í menntakerfinu frá leikskóla til doktorsgráðu, svo og um svið, eftir innihaldi náms.[2]

  • ISCED 2011 flokkunin skiptist upp með eftirfarandi hætti:
  • ISCED 0 = leikskólastig.
  • ISCED 1 = Grunnskóli: barnaskólastig.
  • ISCED 2 = Grunnskóli: unglingastig.
  • ISCED 3 = Framhaldsskólanám.
  • ISCED 4 = Framhaldsnám utan háskólastigs.
  • ISCED 5 = Stutt háskólanám.
  • ISCED 6 = BA gráða eða sambærilegt háskólastig.
  • ISCED 7 = Meistarapróf eða sambærilegt háskólastig.
  • ISCED 8 = Doktorspróf eða sambærilegt háskólastig.

Námsgreinaflokkunarkerfi Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og CEDEFOP, Þróunarmiðstöðvar Evrópusambandsins um starfsmenntun, fylgir alþjóðlegri menntunarflokkun UNESCO.[3]

Flokkun á Íslandi

breyta

„ÍSNÁM“ - íslenska náms- og menntunarflokkun, byggir á einnig á alþjóðlegri menntunarflokkun ISCED. Hagstofa Íslands hefur um árabil aflað gagna um íslenska skólakerfið og beitt alþjóðlega flokkunarstaðlinum ISCED við úrvinnslu gagna fyrir innlendar og alþjóðlegar samantektir um menntamál. ÍSNÁM2008 endurspeglar þetta flokkunarstarf mennta- og menningarmáladeildar Hagstofunnar.[4]

Alþjóðlega menntunarflokkunin (ISCED ) er víða notuð til að lýsa íslenska menntakerfinu í alþjóðlegu samhengi.[5]

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Heimsmarkmið | Merki“. www.heimsmarkmidin.is. Sótt 29. ágúst 2022.
  2. „Education Statistics“. datatopics.worldbank.org. Sótt 28. ágúst 2022.
  3. „EDUCATION AND TRAINING - Education administrative data from 2013 onwards“. ec.europa.eu. Sótt 29. ágúst 2022.
  4. „Hagstofan: ÍSNÁM2008“. Hagstofa Íslands. Sótt 28. ágúst 2022.
  5. Skúlína Hlíf Kjartansdóttir 1956 ; Stefán Stefánsson 1953 ; Kristrún Ísaksdóttir 1946 (11 2013). „Skills beyond school : national background report for Iceland : OECD review“ (PDF). Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Sótt 28. ágúst 2022.