Alþjóðavinnumálastofnunin

Sérstofnun innan Sameinuðu þjóðanna
(Endurbeint frá ILO)

Alþjóðavinnumálastofnunin (e. International Labor Organization eða ILO) er sérstofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem hefur það hlutverk að standa vörð um mannréttindi og vinnuréttindi í þágu réttlætis og friðar.[2] Starfsemi stofnunarinnar snýst um að „skilgreina og samræma grundvallarréttindi í atvinnulífinu, vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og stefnumótun í félags- og vinnumálum og bæta aðstæður og efla öryggi á vinnustöðum“.[3]

Alþjóðavinnumálastofnunin
International Labor Organization
Fáni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
SkammstöfunILO
Stofnun1919; fyrir 105 árum (1919)
HöfuðstöðvarFáni Sviss Genf, Sviss
FramkvæmdastjóriGilbert Houngbo (síðan 2022[1])
MóðurfélagAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðawww.ilo.org

Alþjóðavinnumálastofnunin hóf störf sín árið 1919 samkvæmt ákvæði í Versalasamningnum, þar sem gert var ráð fyrir stofnun til að gæta hagsmuna launafólks um allan heim og vinna að auknu samfélagslegu réttlæti. Stofnunin varð sérstofnun innan Sameinuðu þjóðanna árið 1945. Það ár varð Ísland einnig aðili að stofnuninni ásamt fleiri aðildarríkjum SÞ.[4]

Starfsemi og skipulag

breyta

Stofnunin birtir samþykktir og tilmæli til aðildarríkja um margvísleg réttindamál á sviði félags- og vinnumála. Þar á meðal eru tilmæli um að virða grundvallarréttindi atvinnurekenda og launafólks, um félagafrelsi, réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu, jafnrétti til vinnu, rétti til almannatrygginga og aðstoðar vegna atvinnuleysis.[3]

Alþjóðavinnumálastofnunin er ólík öðrum alþjóðastofnunum og undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna að því leyti að fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks eiga aðild að stjórn hennar og taka þátt í umræðum og ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi hennar. Alþjóðavinnumálaþingið fer með æðstu stjórn stofnunarinnar og kýs stjórnarnefnd sem hefur umsjá með málefnum alþjóðavinnumálaskrifstofu hennar í Genf.[3]

Samkvæmt stofnskrá ILO ber aðildarríkjum að senda að minnsta kosti fjóra fulltrúa til Alþjóðavinnumálaþingsins, sem kemur saman í júlí á hverju ári. Tveir þeirra eiga að vera fulltrúar ríkisstjórnar, einn fulltrúi atvinnuveitenda og einn fulltrúi launþega. Einnig er aðildarríkjum heimilt að senda sérfræðinga ásamt fulltrúunum.[3]

Stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kemur saman þrisvar á ári í Genf. Stjórnarnefndin leggur drög að stefnu samtakanna og framkvæmda- og fjárhagsáætlun sem er síðan tekin til umfjöllunar og samþykkis á Alþjóðavinnumálaþinginu. 56 fulltrúar eiga sæti í stjórnarnefndinni; þar af 28 ríkisstjórnarfulltrúar, 14 fulltrúar launþega og 14 fulltrúar atvinnurekenda. Ríkisstjórnir tíu helstu iðnríkja heims útnefna tíu fulltrúa en hinir ríkisstjórnarfulltrúarnir eru tilnefndir af fulltrúum aðildarríkjanna á Aþjóðavinnumálaþinginu.[3]

Grundvallarsamþykktir ILO

breyta

Átta samþykktir hafa verið skilgreindar sem grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar:[4]

  • Samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
  • Samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess.
  • Samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega.
  • Samþykkt nr. 100 um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.
  • Samþykkt nr. 105 um afnám nauðungarvinnu.
  • Samþykkt nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs.
  • Samþykkt nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu.
  • Samþykkt nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.

Viðurkenningar

breyta

Árið 1969, á fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar, hlaut Alþjóðavinnumálastofnunin friðarverðlaun Nóbels „vegna framlags stofnunarinnar við varðveislu heimsfriðarins“.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Gilbert F. Houngbo nýr framkvæmdastjóri ILO“. Alþýðusamband Íslands. 30. mars 2022. Sótt 24. ágúst 2023.
  2. „Alþjóðavinnumálastofnunin“. forseti.is. 3. apríl 2019. Sótt 20. desember 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 „Alþjóðavinnumálastofnunin“. Félagsmálaráðuneyti Íslands. Sótt 20. desember 2019.
  4. 4,0 4,1 „Alþjóðavinnumálastofnunin“. Evrópuvefurinn. 19. mars 2013. Sótt 20. desember 2019.
  5. „ILO veitt friðarverðlaun Nobels“. Morgunblaðið. 21. október 1969. Sótt 20. desember 2019.