Hvalstöðin í Hvalfirði
Hvalstöðin í Hvalfirði er hvalskurðar- og vinnslustöð í Hvalfirði, reist árið 1948 á vegum Hvals hf. til að unnt væri að landa og vinna hval þar.
Engin önnur hvalstöð var þá starfandi á landinu en áður höfðu Norðmenn reist nokkrar stöðvar bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Var sú fyrsta reist í Álftafirði við Ísafjarðardjúp árið 1883. Hvalstöðin á Asknesi við Mjóafjörð var á sínum tíma talin afkastamesta hvalstöð í Norðurhöfum. Þessar stöðvar lögðust þó af upp úr 1910, þegar hvalastofnarnir við landið hrundu. Á fjórða áratug 20. aldar veiddu norsk verksmiðjuskip hval hér við land en árið 1935 var reist hvalstöð á Tálknafirði, sú fyrsta sem var í meirihlutaeigu Íslendinga, og starfaði hún í fimm ár, en þá lögðust hvalveiðar af vegna stríðsins.
Árið 1948 var svo hvalstöðin í Hvalfirði reist undir Þyrilsklifi og nýttu menn sér þar meðal annars bryggju, bragga og fleiri mannvirki sem Bandamenn höfðu reist þar á stríðsárunum. Um það leyti voru áform uppi um fleiri hvalstöðvar, svo sem í Örfirisey og á Patreksfirði, en atvinnumálaráðuneytið veitti ekki leyfi til að reisa þær þar sem talið var að ein hvalstöð gæti fullvel annað þörfinni.
Hvalir voru skornir í hvalstöðinni á hverju sumri, frá því um hvítasunnu fram í miðjan september, næstu áratugi og störfuðu þar um hundrað manns þegar flest var. Þá voru skornar 300-400 langreyðar og sandreyðar á hverju sumri. Fyrstu áratugina var hvalurinn aðallega unninn í lýsi, mjöl og hundafóður, en eftir að viðskipti við Japani hófust var farið að frysta kjötið til manneldis. Stöðin var starfrækt til 1989 en síðustu árin voru þó fáir hvalir skornir þar miðað við það sem áður var, síðasta sumarið 68 langreyðar og engin sandreyður.
Í nóvember 1986 brutust tveir félagar í umhverfissamtökunum Sea Shepherd inn í Hvalstöðina og unnu þar mikil skemmdarverk á tækjum og búnaði og sökktu svo um nóttina tveimur hvalbátum sem lágu í Reykjavíkurhöfn.
Þótt hvalveiðar leggðust af í tvo áratugi, var hvalstöðinni haldið við og sumarið 2009 hófst hvalskurður þar að nýju.