Hundategund

(Endurbeint frá Hundategundir)

Hundategund, hundakyn eða hundaafbrigði er hópur hunda sem á flestöll útlitseinkenni og skapgerðareinkenni sameiginleg, einkum vegna þess að hann er kominn af hópi sameiginlegra forfeðra sem hafði sömu einkenni. Þess ber að geta að orðið „hundategund“ getur verið villandi, því allir hundar eru sömu tegundar í líffræðilegum skilningi. Eftir sem áður er orðanotkunin útbreidd.

Chihuahua blendingur og stóri dani bera vitni um margbreytileika hundategunda.

Yfirlit

breyta
 
Síberískur husky

Hundar hafa verið ræktaðir í þeim tilgangi að ná fram tilteknum einkennum í þúsundir ára. Upphaflega mun ræktunin hafa miðað að því að auðvelda tamningu hundsins og að ná fram nytsamlegri hegðun, svo sem veiðieðli. Síðar voru hundar einnig ræktaðir útlitsins vegna og afleiðingin er meðal annars margbreytileiki meðal hundategunda.

Margar hefðbundnar hundategundir sem eru viðurkenndar af hundaræktarfélögum eru sagðar vera „hreinræktaðar“. Einungis þeir hundar sem eru komnir af tveimur hreinræktuðum hundum eru taldir hreinræktaðir. Hugtakið er umdeilt bæði vegna þess hve erfitt er að framfylgja settum reglum og vegna mögulegra erfðafræðilegra afleiðinga ræktunar af of litlum stofni. Erfðafræðirannsóknir hafa verið gerðar undanfarið á ólíkum hundategundum og hafa afleiðingarnar í sumum tilvikum komið á óvart til dæmis hvað aldur og skyldleika hundategunda varðar.

Almennt gildir að áður en afbrigði hunds er viðurkennt sem réttnefnd hundategund eða hundakyn verður að sýna fram á að afkvæmi tveggja einstaklinga af því afbrigði séu ávallt hundar með sömu einkenni og foreldrarnir, bæði í útliti og skapgerð. Til dæmis verður slétthærður sækir að vera svartur; þó fæðast gulir hvolpar af og til. Hundaræktarfélög viðurkenna ekki gulu hundana sem einstaklinga þessarar hundategundar og sumir ræktendur drepa hvolpana frekar en að leyfa þeim að vaxa úr grasi og geta af sér fleiri „óæskilega“ gula hvolpa og viðhalda þannig geninu; stundum eru slíkir hundar vanaðir og seldir sem gæludýr. Annað dæmi má taka af belgískum fjárhundum en tveir hundar af groenendael-afbrigði belgískra fjárhunda geta stundum af sér hvolpa af tervueren-afbrigði (brúna). Hundaræktarfélagið American Kennel Club telur afbrigðin vera ólíkar hundategundir og þar af leiðandi eru brúnu hvolparnir ekki samþykktir og taldir óæskilegir; aftur á móti telja önnur hundaræktarfélög, svo sem Canadian Kennel Club, að hundarnir séu einfaldlega ólík litaafbrigði af sömu hundategund.

Heimild

breyta

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta

Almennir tenglar

breyta

Tenglar á Vísindavefnum

breyta
  • „Hver er skilgreiningin á hreinræktuðum hundi?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað eru til margar hundategundir í heiminum?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvers vegna eru til svona mörg ólík hundakyn? Lifðu þau öll villt á sínum tíma?“. Vísindavefurinn.