Filippía Kristjánsdóttir

(Endurbeint frá Hugrún skáldkona)

Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir betur þekkt undir nafninu Hugrún skáldkona (fædd 3. október 1905 í Skriðu í Svarfaðardal, dáin 8. júní 1996 í Reykjavík) var íslenskur rithöfundur. Eftir Hugrúnu liggja að minnsta kosti 29 ritverk, mest ljóða- og barnabækur, en einnig nokkrar skáldsögur og minningarbrot úr bernsku.

Stór hluti af skáldsögum, frásögnum og ljóðum Hugrúnar eiga rætur sínar í Svarfaðardal og eitt af ljóðum hennar um dalinn, kvæðið Svarfaðardalur, hafa Svarfdælingar gert að héraðssöng sínum. Hugrún var á sínum tíma þekkt útvarpsrödd og las sjálf margar af sögum sínum, frásögnum og ljóðum í Ríkisútvarpið.

Foreldrar Filippíu voru Kristján Tryggvi Sigurjónsson bóndi að Skriðu og Brautarhóli í Svarfaðardal og kona hans Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir.

Filippía giftist Valdimar Jónssyni árið 1932, f. 4. mars 1900. Filippía og Valdimar eignuðust 3 börn, Ingveldi Guðrúnu, hjúkrunarfræðing, f. 28. sept. 1933. Kristján Eyfjörð, f. 27. febr. 1935, d. 1963 og Helga Þröst, lækni og prófessor, f. 16. sept. 1936, d. 2018 en hann var var um tíma ábúandi í Gröf í Svarfaðardal, sem er næsti bær við æskuheimili Filippíu á Brautarhóli. Fæðingarstaður Filippíu, Skriða, er í dag hluti af landi Grafar.

Ritverk

breyta
  • Mánaskin. 1941. (ljóðabók)
  • Stjörnublik. 1942. (ljóðabók)
  • Við sólarupprás. 1944. (smásögur)
  • Hvað er á bak við fjallið? 1945. (barnabók)
  • Hver gægist á glugga? 1947. (barnabók)
  • Úlfhildur. -Akureyri, 1949. (skáldsaga)
  • Vængjaþytur. -Rvík, 1949. (ljóðabók)
  • Hvað viltu mér? -Akureyri, 1951. (barnabók)
  • Hafdís og Heiðar. I. -Rvik, 1953. (barnabók)
  • Ágúst í Ási. -Rvík, 1955. (skáldsaga)
  • Hafdís og Heiðar. II. -Rvík, 1956. (barnabók)
  • Stefnumót í stormi. -Rvik, 1958. (smásögur)
  • Fuglar á flugi. -Rvík, 1958. (ljóðabók)
  • Fanney á Furuvöllum. -Rvík, 1961. (skáldsaga)
  • Sagan af Snæfríði prinsessu og Gylfa gæsasmala. -Rvík, 1962. (barnabók)
  • Dætur fjallkonunnar. -Rvík, 1963. (æviminningar Sigríðar Sveinsdóttur og Önnu Margrétar)
  • Draumar og vitranir. -Rvík, 1965.
  • Strokubörnin. -Rvík, 1966. (barnabók)
  • Perlubandið. -Rvík, 1967.
  • Anna Dóra og Dengsi. 1970. (barnabók)
  • Haustblóm. 1973. (ljóðabók)
  • Draumurinn um ástina. 1975. (skáldsaga)
  • Farinn vegur. -Rvík, 1975. (æviminningar Vigdísar Kristjánsdóttur og Gunnhildar Ryel)
  • Strengjakliður. 1977. (ljóðabók)
  • Skelfing er heimurinn skrýtinn. 1980.
  • Ég læt það bara flakka. 1982. (æviminningar)
  • Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. 1993 (1987). (p. 667-672 ; 956-7 ; 975)
  • Leyndarmálið í Engidal. 1987 (skáldsaga)