Hringormar
Hringormar er safnheiti yfir þráðorma sem lifa í fiski. Einkenni hringorma er hringrás þeirra milli dýra í sjó. Þeir sýkja dýr (hýsla) og taka sér bólfestu í þeim og berast á milli hýsla frá minna dýri að stærra dýri sem étur minni dýr með hringormi. Þannig berast hringormar frá örlitlum krabbadýrum til fiska og þaðan yfir í ránfiska, sjófugla, seli og hvali. Hringormar hafa hamskipti á þessari leið og þroskast frá einu lirfustigi í annað. Þau dýr sem bera sníkjudýrið með sér eru kölluð millihýslar en þau dýr sem bera með sér hringorma á kynþroskastigi og á stað þar sem æxlun fer fram kallast lokahýslar. Lokahýslar hringorma eru ránfiskar, sjófuglar, selir og hvalir.
Á Íslandsmiðum eru hringormategundirnar selormur (Pseudoterranova decipiens) og hvalormur (Anisakis simplex) vandamál í fiskvinnslu og eru þeir hreinsaðir úr fiskflökum. Hringormar eru algengir hjá fiskum eins og keilu og þorski en minna hjá ýsu vegna mismunandi fæðuvals. Þorskur fer um mikið hafsvæði og getur orðið 15-20 ára og þá verið með mikið af hringormum.
Heimildir
breyta- Erlingur Hauksson, Hringormar Geymt 23 október 2020 í Wayback Machine
- Erlingur Hauksson o.fl. Sníkjuorðmar og fæða fisks, skarfs og sels, Hafrannsóknastofnun, Fjölrit nr. 115, Reykjavík 2005
- Measures, L.N., 2014, Anisakiosis and pseudoterranovosis: Reston, Va., U.S. Geological Survey Circular 1393, 34 p., https://doi.org/10.3133/cir1393