Hoba-loftsteinninn er þyngsti loftsteinn á jörðinni og stærsti náttúrulegi járnklumpur sem fundist hefur. Loftsteinn þessi er nefndur eftir fundarstað sínum, Hoba West bóndabænum, sem er nálægt Grootfontein í Namibíu. Loftsteinninn fannst árið 1920, og hefur ekki verið fluttur frá lendingarstað sínum, en hann skall á jörðina fyrir 80.000 árum síðan.

Hoba-loftsteinninn.

Steinninn, sem er um 9 rúmmetrar að stærð, er talinn vera að minnsta kosti 200 milljón ára gamall og jafnvel allt að 400 milljón ára. Hann er talinn vega um 50 - 60 tonn. Hann inniheldur 82% járn, um 16% nikkel og nálægt 1% kóbalt. Einnig má finna í honum lítið eitt af krómi, gallíni, germaníni, iridíni, kolefni, kopar, brennisteini og sinki. Loftsteinar, sem innihalda meira en 15% nikkel eru flokkaðir sem ataxít.