Hljómeyki
Hljómeyki
breytaSönghópurinn Hljómeyki er íslenskur kammerkór. Hann var stofnaður árið 1974 af nokkrum söngvurum úr Pólýfónkórnum og var fyrsti stjórnandi hans Ruth L. Magnússon.[1] Hljómeyki fæst við fjölbreytt verkefni, allt frá kórmúsík endurreisnarinnar til rokktónlistar. Árið 1986 tók Hljómeyki upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti sem stóð í þrjá áratugi og frumflutti hópurinn á þeim tíma tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins. Kórinn tekur iðulega þátt í öðrum hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist og hann hefur átt samstarf við Listaháskóla Íslands um flutning á verkum útskriftarnemenda. Þá hefur Hljómeyki frumflutt ýmis erlend verk á Íslandi, svo sem Náttsöngva Rakhmanínovs, Kórkonsert Schnittkes og Púshkínsveig Georgíjs Svírídov[2].
Hljómeyki hefur gefið út sex geisladiska með verkum eftir íslensk tónskáld, þau Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Jón Nordal og Sigurð Sævarsson. Á Spotify hefur kórinn gefið út úrval íslenskra kórperlna undir titlinum Sumarkveðja og tónlist eftir Hildigunni Rúnarsdóttur við heimildarmyndina Gósenlandið eftir Ásdísi Thoroddsen.
Hljómeyki hefur tekið þátt í flutningi á óperunum Dídó og Eneas eftir Purcell, Orfeus og Evridís eftir Gluck, Orfeo eftir Monteverdi, La Clemenza di Tito eftir Mozart, Carmen eftir Bizet og Porgy og Bess eftir Gershwin. Síðastnefndu verkin þrjú flutti kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kórinn hefur einnig átt í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hann hefur komið fram með rokkhljómsveitunum Todmobile, Sólstöfum, Dimmu, Skálmöld og Dúndurfréttum.
Stjórnandi Hljómeykis er Þorvaldur Örn Davíðsson.