Jón Nordal

íslenskt tónskáld og píanóleikari

Jón Nordal (fæddur 6. mars 1926, dáinn 5. desember 2024) var íslenskt tónskáld og píanóleikari.

Jón Nordal

Jón var sonur hjónanna Ólafar og Sigurðar Nordals. Hann stundaði nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík, m.a. undir handleiðslu Árna Kristjánssonar píanóleikara og Jóns Þórarinssonar tónskálds, sem áður var nemdandi og aðstoðarmaður Paul Hindemiths; útskrifaðist sem píanóleikari árið 1948 og ári síðar í tónsmíðum. Þaðan lá leiðin til Zurich, þar sem hann stundaði nám á árunum milli 1949 og 1951 hjá þeim Willy Burkhard í tónsmíðum og Walter Frey í píanóleik. Hann dvaldi í útlöndum til ársins 1957, í Kaupmannahöfn, París og Róm og sótti sumarnámskeið í nútímatónlist í Darmstadt þar sem hann hitti maðal annars helstut framúrstenfmenn síns tíma, svo sem Stockhausen, Nono, Maderna og Ligeti og varð auk. þess fyirr miklum áhrifum frá tónlist Antons Weberns. Þegar hann var kominn heim hóf hann störf hjá sínum gamla skóla sem kennari og varð skólastjóri árið 1959. Jón Nordal var einn af stofnendum Musica Nova og fyrsti formaður þess.

Jón vakti fyrst athygli á sér sem tónskáld með fiðluverkinu „Systurnar í Garðshorni“, sem flutt var á listamannaþinginu 1945. Síðan með hljómsveitarverkinu „Concerto grosso“ (1950). Ennfremur með konsert fyrir píanó og hljómsveit, sem flutt var í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu 10. desember 1957, og lék þá höfundurinn sjálfur píanóhlutverkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem Wilhelm Schleuning, ríkishljómsveitarstjóri í Dresden stjórnaði sem gestur. Píanókonsertinn er frábrugðinn píanókonsertum í klassískum stíl að því leyti, að mjög er dregið úr forustuhlutverki einleikshljóðfærisins. Konsertinn er í einum þætti og er veigamikið tónverk. Af öðrum tónsmíðum eftir hann, sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur flutt, er „Sinfonietta seriosa“ (Bjarkamál), ennfremur konsert fyrir píanó og hljómsveit í einum kafla (Brotaspil) og Adagio fyrir flautur, hörpu og strengjasveit. Karlakórlög eftir Jón, sem „Fóstbræður“ hafa sungið, hafa vakið verðskuldaða athygli. Í stuttu máli, þá hefur Jón samið hljómsveitarverk, kammermúsíkverk, einleiksverk fyrir píanó, fiðlu, karlakórlög og einsöngslög. Sem tónskáld er hann sjálfstæður og sérkennilegur, er í snertingu við þær hræringar sem eru í nútímanum og hefur fullkomið vald á tónsmíðatækni. Jón Nordal er eitt eftirtektarverðasta tónskáldið af hinni yngri kynslóð.

Jón hefur komið opinberlega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í verkum eftir sjálfan sig og önnur tónskáld.

Heimildir

breyta
  • „Tónlistarsaga Reykjavíkur“. Sótt 21. mars 2009.
  • Einnig efni úr; Jón Nordal, Portrait. Geisladiskur gefinn út af ITM
   Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.