Hjálpræðiseyjar
Hjálpræðiseyjar (franska: Iles du Salut) eru þrjár litlar eyjar undan strönd Franska Gvæjana í Atlantshafi. Eyjarnar tilheyra sveitarfélaginu Cayenne á Frönsku Gvæjana. Um langt árabil var starfrækt fanganýlenda á Hjálpræðiseyjum þar sem hættulegustu afbrotamenn Frakklands voru sendir.
Af eyjunum þremur er Djöflaeyja þekktust, en þar var Alfred Dreyfus í haldi á árunum 1895-1899 eftir að hafa hlotið dóm fyrir landráð í Frakklandi. Fanganýlendan var endanlega lögð niður árið 1953 og í dag eru Hjálpræðiseyjar vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Árið 1969 kom út bókin Papillon eftir franska rithöfundinn Henri Charriére sem fjallar um fangelsun og flótta aðalpersónunnar frá Hjálpræðiseyjum.