...hefst á því að skilgreina viðfangsefnið á skýran og auðskiljanlegan hátt; inngangurinn kynnir og útskýrir efnið og mikilvægi eða þýðingu þess á greinargóðan en auðskiljanlegan hátt, án þess að fara út í smáatriði.
...er auðskiljanleg; nógu skýr til þess að hún sé skiljanleg öllum, ekki bara sérfræðingum um viðfangsefnið, en gerir efninu eigi að síður ítarleg og nákvæm skil.
...er næstum því sjálfri sér næg; í greininni er fjallað um öll meginhugtök sem tengjast viðfangsefninu og þau útskýrð, án þess þó að fara um of út fyrir efnið, þannig að lesandinn öðlist skilning á viðfangsefni greinarinnar án þess að þurfa að lesa margar aðrar greinar.
...er tengd öðrum greinum; í greininni er tenglar á aðrar greinar bæði á Wikipedia og utan Wikipediu, sem varpa ljósi á þýðingu og bakgrunn viðfangsefnisins eða veita upplýsingar, sem tengjast efninu, svo að lesendur geti auðveldlega fundið frekari fróðleik um efnið.
...viðurkennir og fjallar um allar hliðar efnisins; greinin fjallar um allar hliðar efnisins líkt og alfræðiriti ber.
...er algerlega hlutlaus og óhlutdræg; greinin samræmist algerlega hlutleysisreglunni; fjallar um ólík viðhorf til viðfangsefnisins á sanngjarnan og yfirvegaðan máta og vísar til allra hliða málsins án þess að gera einu sjónarmiði hærra undir höfði. Fullkomin grein hefur það sem sannara reynist og leggur áherslu á viðurkenndustu sjónarmiðin sem eru studd bestu heimildum og leggur minni áherslu á minnihlutaskoðanir en fjallar eigi að síður um þau af sanngirni og veitir nægar upplýsingar og vísar nægilega í heimildir til þess að lesandinn geti aflað sér frekari upplýsinga um tiltekið viðhorf.
...er hæfilega löng; lengd greinarinnar er nægileg til þess að veita allar nauðsynlegar upplýsingar um efnið, fjalla um það af nokkurri dýpt en án ónauðsynlegra útúrdúra og smáatriða, sem ættu frekar heima í tengdri „undirgrein“ eða á systurverkefnum alfræðiritsins.
...endurspeglar sérfræðiþekkingu; byggð á staðreyndum og á traustum grunni vísinda og fræðimennsku.
...er nákvæm; laus við ónákvæmni, alhæfingar og hálfsannindi, sem eru ef til vill afleiðing ónógrar þekkingar á viðfangsefninu.
...er studd heimildum; vísað er í traustar og góðar heimildir fyrir öllum staðreyndum, einkum aðgengilegar og nýlegar heimildir.
...er mjög skýr; laus við margræðni og misskilning. Hefst á skilgreiningu og er röklega uppbyggð; setningar eru auðskiljanlegar og greinin er almennt á góðu og vönduðu máli.
...hefur myndir, sem tengjast efninu og varpa ljósi á það; hverri mynd fylgir stuttur skýringatexti. Myndir geta verið af málverkum og listaverkum, ljósmyndir, kort eða skýringamyndir; myndir eru nægilega margar til að auka áhuga lesandans og skilning hans á viðfangsefninu en nógu fáar til að taka ekki athyglina af meginmáli greinarinnar.
...er fjölbreytileg; mynstur og lengd málsgreina er margbreytilegt; málið er lýsandi og litríkt en hefur samt alfræðilegan tón.
...er málfræðilega rétt, laus við stafsetningarvillur og samræmist góðum ritvenjum; fylgir öllum viðurkenndum reglum um íslensku.
...getur ekki verið til. Ekki hafa of miklar áhyggjur af því að gera einhverja grein fullkomna. Fullkomnun er í eðli sínu óraunhæf hugsjón. Þau atriði sem að ofan eru talin togast oft á og þá getur verið ómögulegt að uppfylla allar kröfur, sem gerðar eru til „fullkominnar“ greinar. Ánægjan sem hlýst af því að skrifa og breyta greinum stafar af því að þess er ekki krafist að greinar séu fullkomnar.