Hin skoska heimspeki heilbrigðrar skynsemi
Hin skoska heimspeki heilbrigðrar skynsemi var hreyfing í heimspeki sem blómstraði á Skotlandi á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar. Rætur hennar má rekja til viðbragða við skrifum heimspekinga á borð við John Locke, George Berkeley og David Hume. Helstu málsvarar hennar voru Thomas Reid og William Hamilton, sem sameinaði nálgun Reids og heimspeki Immanuels Kant. Hreyfingin hafði áhrif á heimspekinga á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku, ekki síst bandaríska heimspekinginn Charles S. Peirce.
Meginhugðarefni heimspekinga hinnar skosku heimspeki heilbrigðrar skynsemi voru þau að verja „heilbrigða skynsemi“ gegn heimspekilegum þverstæðum og efahyggju. Þeir héldu því fram að almennar hversdagslegar skoðanir liggi til grundvallar lífi og hegðun jafnvel þeirra sem gæla við andstæðar hugmyndir og að öllum sé gefið að skilja það sem fólgið er í heilbrigðri skynsemi.