Hin myrka hlið Zorglúbbs

Hin myrka hlið Zorglúbbs (franska: La Face cachée du Z) er 52. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú önnur eftir höfundanna Yoann og Fabien Wehlmann. Hún var gefin út á bókarformi á frönsku árið 2011 eftir að hafa birst sama ár í teiknimyndablaðinu Sval og kom út á íslensku árið 2021.

Belgíska bókakápa Hinnar myrku hliðar Zorglúbbs.

Söguþráður

breyta

Sagan er framhald Alerte aux Zorkons og hefst þar sem Svalur og Valur vinna að viðgerðum á höll Sveppagreifans. Um nóttina eru þeir allir numdir brott af Zorglúbb og fluttir í leynilega geimstöð á skuggahlið Tunglsins. Þar stundar Zorglúbb hvers kyns rannsóknir og viðurkennir að hafa brotist inn í höll greifans til að finna efni sem drepið gæti sveppagróður í stöðinni.

Félagarnir spyrja hvernig Zorglúbb gat fjármagnað ævintýrið. Í ljós kemur að dularfullir bakhjarlar kostuðu bygginguna, gegn því að jafnframt væri rekið þar hótel og skemmtigarður fyrir stórstjörnur og milljarðamæringa. Öryggisgæslan er í höndum harðsnúinna málaliða. Valur nýtur lífsins umkringdur fyrirmennum og frægðarfólki.

Svalur og Pési verða fyrir háskalegri geimgeislun. Geislunin gefur þeim ofurkrafta, en jafnframt eiga þeir til að breytast í hálfgerð skrímsli þegar minnst varir. Áður en þetta kemur í ljós, eru unnin dularfull skemmdarverk á geimstöðinni. Flestir gestirnir eru sendir til Jarðar meðan öryggisgæslan reynir að finna sökudólginn.

Svalur breytist í ófreskju og stekkur á flótta undan Bronco, foringja öryggisvarðanna, sem reynist sjálfur hafa orðið fyrir geimgeislun. Zorglúbb reynist standa á bak við spellvirkin. Hann hertekur stöðina og setur Val, Sveppagreifann og Pésa um borð í næstu geimflaug til Jarðar. Zorglúbb hyggst gera rannsóknir á Sval, þegar Bronco kemur aðvífandi. Þeir Svalur, sem báðir eru í dýrsham, berjast uns Bronco þeytist út í geim. Svalur kemst um borð í flaug félaga sinna, þar sem hann nær bata.

Í lok bókar ríkir Zorglúbb yfir tunglstöðinni og undirbýr heimsyfirráð í krafti vélmenna sinna. Á skrifstofu hinna dularfullu bakhjarla bölva menn Zorglúbb fyrir svikin, en áhugi þeirra beinist nú að Sval.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Heimsfræg leikkona Blythe Prejlowieky er meðal gesta á Tunglinu og kemst í vinfengi við félagana. Hún sýnir Sval mikinn áhuga, sem hann fer algjörlega á mis við.
  • Bronco virðist farast í sögunni, en hann snýr þó aftur síðar í sagnaflokknum í Vikapiltur á vígaslóð. Í íslenskri þýðingu sögunnar fær hann nafnið Tuddi trukkur.

Íslensk útgáfa

breyta

Hin myrka hlið Zorglúbbs var gefin út af Froski útgáfu árið 2021 í íslenskri þýðingu Anítu K. Jónsson. Hún er merkt sem 54. bókin, þótt hún teljst sú 52. í opinberu ritröðinni á frönsku. Skýringin á misræminu liggur í að Froskur telur með nokkrar bækur með eldri sögum en opinbera röðin hefur að geyma.