Eyvindur Þorsteinsson
Eyvindur Þorsteinsson var landnámsmaður í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var sonur Þorsteins höfða, hersis á Hörðalandi. Eftir að faðir hans lést ákvað hann að fara til Íslands og bað þá Ketill hörðski bróðir hans að nema land fyrir sig líka ef hann skyldi ákveða að fara til Íslands síðar.
Eyvindur sigldi norður fyrir landið og tók land á Húsavík. Hann fór upp í Reykjadal og nam þar land upp frá Vestmannsvatni fyrir sig og bróður sinn. Náttfari hafði áður eignað sér dalinn og gert merki á tré („hafði merkt á viðum“) en Eyvindur „gerði hann honum tvá kosti, at hann skyldi eiga Náttfaravík, eða alls ekki. Þangat fór Náttfari.“ Eyvindur bjó á Helgastöðum í Reykjadal. Hann sendi svo Katli orðsendingu um landnámið og kom Ketill síðar til Íslands og bjó á Einarsstöðum.
Synir Eyvindar voru Helgi bóndi á Helgastöðum, sem drukknaði á Grímseyjarsundi, og Áskell goði. Hann giftist dóttur Grenjaðar landnámsmanns á Grenjaðarstað. Einn sona þeirra var Víga-Skúta.