Heidi Strand
Heidi Strand (f. 6. janúar 1953) er íslenskur myndlistarmaður.
Æviágrip
breytaHeidi Strand fæddist í Þrándheimi í Noregi. Foreldrar hennar voru hjónin Leon Høyer Strand, fæddur árið 1908 í Madison í sambandsríkinu Minnesota, og Solveig Gundersen, fædd árið 1919 í Drammen í Noregi. Hún ólst upp með eldri bróður sínum Egil, (f. 6. ágúst 1951, d. 4. febrúar 2024) en einnig átti hún eldri systkini, búsett bæði í Þrándheimi og annars staðar. Fyrstu árin bjó fjölskyldan rétt við hið þekkta kennileiti borgarinnar, Gamle Bybro(no), en síðar fluttist hún til Lade(no) sem kallað var að Hlöðum í fornum sögum. Aðaláhugamál Heidi á unglingsárum voru kappróðrar og varð hún tvisvar Noregsmeistari, fyrst sem stýrimaður í fjögurra manna báti í flokki fullorðinna 1967 og svo sem unglingur í tvírónum tveggja manna báti 1969. Heidi kynntist eiginmanni sínum Matthíasi Kristiansen í Þrándheimi, fluttist til Íslands um áramótin 1972/3 og hefur búið þar síðan, nema árin 1975-80 þegar þau hjónin sóttu nám og vinnu í Noregi og Danmörku.
Menntun
breytaHeidi lauk námi sem sjúkraliði 1972 og vann sem slík, bæði á Íslandi og í Noregi. Árið 1978 lauk hún myndlistarnámi með starfsheitið aktivitør, beskæftigelsesvejleder á dönsku, og vann um hríð sem slík hjá félagstarfi aldraðra í Reykjavík. Saumar og handavinna áttu þó allan þennan tíma hug hennar allan og árið 1978 vann hún 1. verðlaun fyrir saumað myndverk í norska vikublaðinu Det Nye(no). Það varð henni hvatning til að halda áfram og eftir fyrstu sýningu hennar í Ásmundarsal árið 1982 varð ekki aftur snúið svo síðan á 9. áratug hefur hún einbeitt sér að listsköpun. Heidi saumaði lengi veggverk af ýmsum stærðum en hefur lagt aðaláherslu á gerð myndverka með nálaþæfingu úr ull, að mestu íslenskri, síðan um aldamótin. Árið 1986 sótti hún teikninámskeið hjá Ingibergi Magnússyni, árið 1987 námskeið við Myndlistaskólann í Reykjavík og árin 2006 & 2008 námskeið í nálaþæfingu hjá Birgitte Kragh Hansen, Danmörku.
Ferill
breytaEinkasýningar
breytaHeidi hefur haldið 30 einkasýningar, bæði heima og erlendis. Sú umfangsmesta var sýningin Heiði og strönd á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum í júlí 2022 en þar sýndi hún 70 verk, nokkur þau elstu frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar en flest unnin undanfarin 15 ár, í þessum 1000 fermetra sal.
Samsýningar
breytaHeidi hefur tekið þátt í rúmlega 40 samsýningum víða um heim þar sem dómnefndir önnuðust oftast val á verkum. Sumar þeirra voru farandsýningar sem settar voru upp í mörgum löndum og stóðu yfir árum saman. Þar má meðal annars nefna European Art Quilt Foundation en Heidi tók þátt í alls fimm farand- og samsýningum á þeirra vegum sem settar voru upp á um 20 stöðum í Evrópu, Ameríku og Asíu, þar á meðal á lokasýningu samtakanna, Grande Finale, í Goes í Hollandi. Glæsilegar sýningarskrár voru gerðar um allar sýningar samtakanna. Hún átti líka þrjú verk á World Quilt Carnival, sem var þáttur í WorldExpo heimssýningunni í Nagoya í Japan.
Annað
breytaHeidi á 4 verk í bókinni Stitched Journeys with Birds með 200 listamönnum og 500 verkum sem kom út 2023. Hún hefur oftsinnis dvalið í vinnustofum í bæði Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi. Árið 2013 lék Heidi í kvikmyndinni Málmhaus, auk þess sem hún var einn þriggja leikara í röð 13 sjónvarpsauglýsinga fyrir Thule sem gengu í sjónvarpi og kvikmyndahúsum árum saman. Árið 2009 þýddi hún Hvítu bókina eftir Einar Már Guðmundsson á norsku í samstarfi við Matthias Kristiansen en hún var gefin út af Cappelen-Damm og árið 1982 annaðist hún kennslu jólaföndurs í Stundinni okkar á RÚV. Árin 1979-80 bjó Heidi í Danmörku og var þá félagi í Kollektivbutikken Tusind Sind í Kaupmannahöfn. Heidi stundaði kappróður frá 1966 til 1971 og varð tvívegis Noregsmeistari en síðasta árið var hún þjálfari og þjálfunarstjóri hjá Damenes roklubb í Þrándheimi. Heidi hélt á sínum tíma mörg námskeið í bútasaumi, auk þess sem hún kenndi myndlist í grunnskóla Borgarness og hjá félagsstarfi aldraðra í Reykjavík.
Heidi fékk styrk frá menntamálaráðuneyti vegna þátttöku sinnar í Heimssýningunni í Nagoya í Japan 2004, ferðastyrki frá Muggi árin 2007 og 2009 og ferðastyrk listamannalauna vegna vinnustofudvalar í Marseille 2011.
Heidi er félagi í SÍM, Textílfélaginu og SAQA, Studio Art Quilt Associates, og á verk á farandsýningu samtakanna sem hefst í Flórída í september 2023.
Tenglar
breytaVefsetur Heidi er www.heidistrand.com
Skrá yfir einkasýningar hennar má finna hér og samsýningar og annað hér.
Fésbókarsíða Heidi með áherslu á verk hennar er https://www.facebook.com/profile.php?id=100057423408673
- Heiði og strönd
- Heimasíða
- Grande Finale[óvirkur tengill]
- WorldExpo
- Stitched Journeys with Birds
- Málmhaus
- Hvíta bókin
- Tusind Sind
- Damenes roklubb Geymt 29 mars 2024 í Wayback Machine
- Farandsýning Studio Art Quilt Associates
Netfang Heidi má finna á vefsetri hennar.