Handayfirlagning
Handayfirlagning eða handaálagning er sú athöfn að blessa eða lækna með því að leggja hönd yfir höfuð þess sem óskar blessunar eða er veikur. Þeir menn sem hlutu handayfirlagningu til blessunar fengu hana oft jafnframt með ósk um lækningu á einhverjum tilteknum sjúkdómi.
Játvarður góði
breytaÍ næstum sjö aldir læknuðu Englandskonungar með handayfirlagningu. Það var Játvarður góði er fyrstur hóf þessar lækningar, en hann sat að völdum 1042-1066. Svo virðist sem hann hafi læknað alls konar sjúkdóma. Sagt er að hann hafi einu sinni borið lamaðan sjúkling á bakinu til kirkjunnar í Westminster, og þegar þangað kom hafi sjúklingurinn verið albata. Margar sögur ganga af lækningum hans, og sagt er að hann hafi arfleitt afkomendur sína að lækningamætti sínum. Það var þó aðallega kirtlaveiki (eitlakröm), sem þeir læknuðu og þess vegna var hún um langt skeið nefnd konungsveiki (enska: King's Evil) í Englandi.