Hallvarður Vébjörnsson
Hallvarður Vébjörnsson (um 1020 – 15. maí 1043) var bóndasonur frá Vestfold í Noregi. Hann var í móðurætt náskyldur konungunum Ólafi helga og Haraldi harðráða. Hallvarður ætlaði eitt sitt að róa yfir vatnið Drafn, þegar að bar ánauðuga og vanfæra konu, sem bað hann að ferja sig, því að hún væri saklaus ásökuð um þjófnað og á flótta frá mönnum í vígahug. Hallvarður tók við konunni, en skömmu síðar bar að þrjá menn, sem hrundu fram öðrum báti og veittu þeim eftirför. Hallvarður bauð lausnargjald eða dóm á mál hennar en var skotinn með ör í hálsinn, sem var til ólífis. Menn þessir drápu konuna og urðuðu en bundu kvarnarstein um hálsinn á líki Hallvarðs og sökktu því. Það flaut um síðir upp, og jarteinir urðu við gröf hans, svo að Haraldur harðráði lét grafa upp líkið, smíða um það vandað skrín og flytja til kirkju í Osló. Þar var síðar reist mikil kirkja og helguð Hallvarði. Hann er verndardýrlingur borgarinnar, og mynd hans prýðir enn skjaldarmerki hennar. Hann er álitinn píslarvottur, því að hann hafi látið lífið við að hjálpa saklausum. Á Íslandi var rituð saga af Hallvarði á norrænu máli, en hún er aðeins varðveitt að litlum hluta í handritum Árnasafns.