Halldór Bjarnarson
Halldór Bjarnarson, (fæddur. 11. nóvember 1855, lést 19. september 1945) var íslenskur prestur, aðallega þekktur vegna svonefndra "Presthólamála," en þau mál voru talsvert ofarlega á baugi í blöðum og tímaritum um aldamótin 1900.
Ætt, uppruni og nám
breytaHalldór Bjarnarson fæddist á Eyjólfsstöðum á Völlum. Faðir hans, Björn Skúlason, f. 2. 4. 1810 - d. 2.1. 1865, umboðsmaður á Eyjólfsstöðum, dó þegar Halldór var á barnsaldri. Móðir hans hét Bergljót Sigurðardóttir, f. 8. 1. 1819 - d. 15.8 1886, en Sigurður var bóndi á Eyjólfsstöðum. Stúdent varð hann 1882 frá Lærða skólanum í Reykjavík. Tveimur árum seinna eða 1884 útskrifaðist hann kandídat frá Prestaskólanum. Presthólar í Núpasveit í Norður-Þingeyjarprófastdæmi voru honum veittir 6. september þetta sama ár, og vígðist hann þangað rúmri viku síðar, eða 14. apríl. Prófastur var hann 1889 til 1897, en þá missti hann embætti sitt vegna Presthólamálanna. Kirkjustjórnin vék honum úr embætti. Um tíma eftir þetta þjónaði séra Halldór sem fríkirkjuprestur í hinu fyrrverandi embættisumdæmi sínu, en fékk árið 1901 endurveitingu fyrir Presthólum. 1911 varð séra Halldór jafnframt prestur á Skinnastað, vegna sameiningar Presthóla- og Skinnastaðasókna. Hann þjónaði til ársins 1926, er hann fékk lausn frá embætti fyrir aldurs sakir, hinn 1. júní það ár. Var hann þá rúmlega sjötíu ára.
Bróðir séra Halldórs var Páll Bjarnarson, cand. filos., f. 18.3 1860 - d. 21. 5 1952, kennari í Reykjavík. Systir hans var Guðrún Bjarnardóttir, gift séra Lárusi Jóhannessyni. Lárus var bróðir Jóhannesar Jóhannessonar, (f.17.1.1866-d.7.2.1950) bæjarfógeta í Reykjavík. Önnur systir hans var Halldóra, sem lengstum var ráðskona og bústýra hans á Presthólum. Þriðja systir hans var Ragnhildur, síðari kona Páls Ólafssonar, skálds. Halldór Bjarnarson giftist aldrei og eignaðist ekki neina afkomendur, en tvær dætur Guðrúnar, systur hans, sáu um hann á efri árum eftir að hann hætti prestskap og flutti til Reykjavíkur 1926.[1]
Presthólamálin
breytaPresthólamálin má rekja til 29. júlí 1892. Þann dag sendi séra Halldór tvo vinnumenn til að reisa fjárhúskofa í landi Presthóla, skammt frá sjónum. Vinnumennirnir hófu þetta verk, en séra Halldór fór í embættisferð og snéri ekki til baka fyrr en þremur dögum seinna. Kofinn var reistur, en við í hann sóttu vinnumennirnir niður í fjöru, í litla vík í fjöru Presthóla, sem kölluð var Skonsan. Viðurinn var eign manns, Guðmundar Guðmundssonar að nafni, en hann bjó í Nýjabæ þar skammt frá. Viðinn hafði Guðmundur sett til geymslu í Skonsunni eftir að hann flutti hann á bát frá Raufarhöfn. Engum á Presthólum var kunnugt um þennan viðarflutning eða bráðabirgðageymslu í fjörunni. En vinnumenn séra Halldórs tóku af viðnum sjö spýtur og notuðu til kofabyggingarinnar. Þetta mál kom á borð Benedikts Sveinssonar, sýslumanns, föður Einars, skálds. Ekki þótti sannað að séra Halldór hefði vísvitandi látið taka þennan við, enda hafði hann viljað skila honum aftur en það dróst á langinn. Önnur ákæra var að séra Halldór hefði tekið rekavið ófrjálsri hendi af fjörum Valþjófsstaða og Einarsstaða í vík sem heitir Magnavík. Presturinn viðurkenndi að hafa tekið svolítið af þessum reka, en mjög lítið. Hann benti á að samkvæmt hefð tilheyrði reki á þessum stað Presthólum, og hefðu forverar hans í embætti hirt rekavið þarna um langt skeið án þess að um væri fengist. Þriðja ákæran var sú að séra Halldór hefði tekið timbur úr strönduðu skipi umfram það sem hann hafði leyfi til, veturinn 1891-1892. Timbrið var talið eign manns að nafni Þórarinn Benjamínsson. Séra Halldór og Þórarinn ásamt fleiri mönnum höfðu keypt skipsflak úr strönduðu skipi sem hét "Ida", en skipið strandaði árið 1887. Þórarinn kærði svo séra Halldór fyrir að hafa tekið mun meira timbur en honum bar úr þessu strandi og flutt heim til sín, ásamt fleiri hlutum.[2]
Þessi mál voru dæmd á tveimur dómsstigum. Fyrst voru þau dæmd í undirrétti snemma árs 1897. Þar var séra Halldór dæmdur til fimm daga fangelsisvistar upp á vatn og brauð fyrir gripdeild samkvæmt 239. grein þáverandi hegningarlaga, og til greiðslu skaðabóta til tveggja manna. Þegar þessi dómur féll var séra Halldór sviptur embætti af kirkjustjórninni.[3] Í yfirrétti sama ár var dómnum breytt. Séra Halldór var sýknaður af ákærum réttvísinnar en dæmdur til að greiða 10 kr. sekt fyrir "ósæmilegan rithátt" í málsskjali, og til að greiða málskostnað. Haustið 1901 var séra Halldór Bjarnarson settur aftur í sitt gamla embætti, eftir að kirkju- og landsstjórnin höfðu skoðað mál hans.[4]
Eftir að séra Halldór hafði verið settur aftur í embætti héldu blaðaskrif áfram um Presthólamálin. Árið 1902 birti séra Benedikt Kristjánsson á Grenjaðarstað (f. 5.11.1840 - d. 26.1.1915) grein í Stefni þar sem hann lýsir aðkomu sinni að þessum málum. Hann segir að biskup hafi falið sér að gegna prófaststörfum í Norður-Þingeyjarprófastsdæmi sumarið 1898. Hann fór að Svalbarði í Þistilfirði til að sækja gögn vegna þessa embættis, og heyrði þá talað um Presthólamálin víða. Var greinilegt, að sögn séra Benedikts, að fjandskapur ríkti milli séra Halldórs og sóknarbarna hans. Séra Benedikt tók ekki afstöðu í þessu máli, en sagði það skoðun sína að "... jeg vona, að allur almenningur sje mjer samdóma um það, að sá prestur, sem er hataður af miklum hluta sóknarbarna sinna, sje allsendis ófær til að vera prestur á þeim stað. Látum prestinn vera saklausan að öðru leyti, hann er samt óhæfur að vera prestur, hafi hann ekki lag á pví að afla sjer virðingar og velvildar sóknarbarna sinna yfirleitt, því vanti hann þenna hæfileika, þá getur hann ekki leyst af hendi skylduverk sitt, svo sem honum ber."[5]
Séra Benedikt segir einnig frá því að fyrir skömmu hafi séra Halldór handleggsbrotið bónda einn í sókn sinni með svipuskafti og er sú frásögn einnig í bæklingnum "Kirkjustjórn vor í upphafi tvítugustu aldar" sem gefinn var út endurprentaður 1958. Bæklingur þessi var upprunalega gefinn út gegn séra Halldóri 1903 og dreift um sveitir austanlands, en ekki var vitað hver stóð að þeirri útgáfu. Bæklingurinn var eignaður fólki í Núpasveit, en þeir sem könnuðust við fólk þar töldu að svo gæti ekki verið. Bæklingurinn var prentaður 1903 á Seyðisfirði af Sigurbirni Jónssyni.[6] [7] Árið 1904 féll dómur í Landsyfirrétti í máli Halldórs Bjarnarsonar gegn Jóni Ingimundarsyni á Brekku í Núpasveit fyrir að hafa sett nafn sitt undir yfirlýsingu eða vottorð með fyrirsögninni "Svar til herra biskups Hallgríms Sveinssonar." Efni þessarar yfirlýsingar var á þá leið að séra Halldór Bjarnarson væri óhæfur um að þjóna sem prestur á Presthólum af ýmsum sökum. Honum lægi svo lágt rómur að varla heyrðust orð hans um kirkjuna, prestur tónaði ekki og ræður hans væru sundurslitnar og illskiljanlegar. Fáir komi því til guðsþjónustu. Ekki hafi verið kosið til sóknarnefndar í tvö ár, og enginn sóknarnefndarfundur verið haldinn á þeim tíma. Þá hafi ekkert verið gert að endurbótum á kirkjunni í langan tíma, þrátt fyrir að nægt fé sé til að lagfæra hana. Séra Halldór er sagður vera þrætugjarn, óskilvís og ósanngjarn. Jón Ingimundarson var dæmdur í sekt fyrir meiðyrði, en flest af þeim ummælum sem séra Halldór kærði Jón Ingimundarson fyrir voru þó ekki talin meiðyrði.[8] Árið 1904 var séra Halldór dæmdur í Landsyfirrétti fyrir brot á 205. gr. almennra hegningarlaga frá 1869 í 200 kr. sekt til Landssjóðs, eða til vara í einfalt fangelsi í 60 daga, auk greiðslu skaðabóta að upphæð 120 kr. til þolanda, fyrir að hafa handleggsbrotið Þórarinn Benjamínsson, bónda að Efrihólum, hinn 25. ágúst 1897 í bæjardyrunum á Presthólum. Skaðabæturnar miðuðust við greiðslu lækningakostnaðar og atvinnumissis Þórarins, en hann var frá vinnu í rúmlega tvo mánuði vegna áverkans.[9]
Listi yfir dómsmál vegna Presthólamálanna
breytaEftirfarandi dómsmál voru höfðuð af Séra Halldóri Bjarnarsyni vegna Presthólamálanna.
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Halldóri bónda Sigurðssyni á Valþjófsstað. Meiðyrði.[10]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Birni Guðmundssyni í Grjótnesi.[11]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn ekkjunni Jóhönnu Bjarnardóttur í Grjótnesi.[12]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Þórarni Benjamínssyni á Efrihólum.[13]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Ingimundi Sigurðssyni á Snartastöðum.[14]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Jóhönnu Bjarnardóttur, Birni St. Guðmundssyni, Jóni Guðmundssyni, Vilborgu S. Guðmundsdóttur og Jakobinu Guðmundsdóttur.[15]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Birni Bjarnarsyni á Arnarstöðum.[16]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Þorláki Einarssyni á Hróarsstöðum.[17]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Þorsteini Þorsteinssyni, hreppstjóra á Daðastöðum.[18]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Jóni Benjamínssyni á Gilsbakka.[19]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn ekkjunni Sigurlaugu Benjamínsdóttur á Snartastöðum.[20]
- Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Þórði Jónssyni í Kílsnesi.[21]
Ýmislegt
breyta- Séra Halldór Bjarnarson hefur verið nefndur Björnsson eða Bjarnason á siðari áratugum, en svo var nafn hans ekki opinberlega ritað meðan hann var á lífi.
- Benjamín Sigvaldason, (1895-1971) rithöfundur, sem um skeið starfaði á Presthólum í tíð séra Halldórs, gaf árið 1958 út bókina "Kirkjustórn vor í upphafi tvítugustu aldar." Útgefandi er Fornbókaverslun Kr. Kristjánssonar, Reykjavík, 1958, en Benjamín var eigandi fornbókaverslunarinnar.[22] Þetta er endurútgáfa á bæklingi með sama nafni sem Sigurbjörn Jónsson lét prenta á Seyðisfirði 1903. Þar er inngangur skrifaður af Benjamín þar sem hann segir frá reynslu sinni af séra Halldóri Bjarnarsyni. Ritið er að uppistöðu til gagnrýni á persónu Halldórs Bjarnarsonar, og fylgja margar sögur af prestinum og hans fólki. [23]
Tilvísanir
breyta
- ↑ „Séra Halldór Bjarnason frá Presthólum“.
- ↑ „Presthólamálið“.
- ↑ „Prestur dæmdur“.
- ↑ „Presthólamálið“.
- ↑ „Presthólamálin“.
- ↑ „Vegna þess að ég hefi heyrt“.
- ↑ „Presthólamálin“.
- ↑ „Halldór prófastur Bjarnarson gegn Jóni Ingimundssyni“.
- ↑ „Réttvísin gegn Halldóri prófasti Bjarnarsyni“.
- ↑ „Halldór prófastur Bjarnarson á Presthólum gegn Halldóri Sigurðssyni á Valþjófsstað“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Birni Guðmundssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn ekkjunni Jóhönnu Bjarnardóttur“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Þórarni Benjamínssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Ingimundi Sigurðssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Jóhönnu Bjarnardóttur o.fl“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Birni Bjarnarsyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Þorláki Einarssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Þorsteini Þorsteinssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Jóni Benjamínssyni“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Sigurlaugu Benjamínsdóttur“.
- ↑ „Halldór Bjarnarson gegn Þórði Jónssyni“.
- ↑ „Minning - Benjamín Sigvaldason, fræðimaður og rithöfundur“. Íslendingaþættir Tímans.
- ↑ Benjamín Sigvaldason ritaði inngang. Höf. óþekktur. Kirkjustórn vor í upphafi tvítugustu aldar. Fornbókaverslun Kr. Kristjánssonar, Reykjavík 1958.