Hallbera Þorsteinsdóttir

Hallbera Þorsteinsdóttir (d. 1330) var íslensk hefðarkona á 13. og 14. öld, abbadís í Reynistaðarklaustri og stofnandi klaustursins með Jörundi Hólabiskupi.

Hallbera var dóttir Þorsteins Halldórssonar á Hesti og Stórólfshvoli og síðar ábóta og Ingigerðar Filippusdóttur, Sæmundssonar í Odda, Jónssonar Loftssonar. Hún var því komin af auðugu fólki og hefur líklega verið ekkja eftir einhvern ríkan höfðingja; Guðrún systir hennar var gift Kolbeini Bjarnasyni Auðkýlingi, einum helsta höfðingja Norðurlands. Svo mikið er víst að Hallbera var vellauðug og lagði mikið fé til stofnunar klaustursins.

Hún virðist þó ekki hafa orðið fyrsta abbadís klaustursins þegar það var stofnað 1298, heldur var fengin til þess Katrín nokkur, sem áður hafði verið nunna eða einsetukona á Munkaþverá, en hún dó strax árið eftir og þá var Hallbera vígð abbadís. Raunar hefur einnig komið fram sú kenning að Katrín og Hallbera séu ein og sama manneskjan og Hallbera hafi tekið sér dýrlingsnafnið Katrín þegar hún tók vígslu.

Hvað sem því líður gegndi Hallbera starfi abbadísar í 30 ár og hefur vafalaust mótað allan brag klaustursins og haft mikil áhrif á þróun þess. Bæði Auðunn rauði Hólabiskup og Lárentíus Kálfsson báru mikið lof á Hallberu og störf hennar. Lárentíus biskup orti latínuvers um hana og las fyrir erkibiskupinn í Niðarósi. Hún dó 1330 og hefur þá vafalaust verið orðin háöldruð, líklega fædd um miðja 13. öld. Heimildum ber ekki saman um næstu abbadís, nefnd eru nöfnin Guðný Helgadóttir, Katrín og Kristín, en líklega er þetta allt sama manneskjan.

Heimildir

breyta
  • „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
  • „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
  • Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.