Höfuðlagsfræði er sú iðja að reyna að dæma persónuleikaþætti manna út frá höfuðlagi þeirra. Kenningin að baki höfuðlagsfræði var sett fram af Franz Joseph Gall á fyrri hluta 19. aldar. Höfuðlagsfræði er nú jafnan talin til hjáfræða.

Skipting hæfileikasvæða samkvæmt höfuðlagsfræði

Forsendur höfuðlagsfræði breyta

Á þeim tíma sem höfuðlagsfræðin varð til vissu menn að hugarstarfsemi var bundin við heilann. Menn töldu einnig að menn byggju yfir ýmsum aðskildum hæfileikum. Fylgjendur höfuðlagsfræði töldu að þess vegna hlyti hver hæfileiki að samsvara tilteknu heilasvæði, og því þroskaðri sem hver hæfileiki væri, því stærra væri heilasvæðið. Á þessum tíma bjuggu menn ekki yfir tækni til að skoða lifandi heilavef (en það er nú til að mynda gert með heilaskönnun). Þeir sem aðhylltust höfuðlagsfræði töldu aftur á móti að stærð höfuðkúpunnar hlyti að ráðast af stærð þeirra heilasvæða sem hún umlyki. Því væri hægt að skoða höfuðkúpuna til að álykta um stærð heilasvæða og þar með hæfileika manna (Aldís Unnur Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind, 2003).

Saga höfuðlagsfræði breyta

Hugmyndum Galls um að finna mætti persónuleika manna út frá höfuðlagi var nánast strax hafnað af öðrum fræðimönnum. Johann Caspar Spurzheim tók aftur á móti grunnhugmyndir Galls, einfaldaði þær og úr því varð til höfuðlagsfræði. Höfuðlagsfræði varð nokkuð vinsæl meðal almennings þessa tíma (Leahey, 2004).

Höfuðlagsfræði lifði um margt ágætu lífi allt fram á síðari hluta síðustu aldar. Þjóðverjar notuðu þessi fræði í síðari heimsstyrjöldinni til þess að flokka gyðinga eftir útliti. Þeir báru höfuðkúpur gyðinga saman við höfuðkúpur apa og töldu sig hafa sýnt fram á að höfuðkúpur gyðinga væru mun líkari höfuðkúpum apa en höfuðkúpur aría, það er einstaklinga af hvíta kynstofninum. Með þessu reyndu þeir að sanna að gyðingar væru mun skyldari öpum en aríar (tilvísun vantar).

Áhrif á sálfræði nútímans breyta

Þótt kenningin um höfuðlagsfræði hafi aldrei náð neinni verulegri fótfestu innan sálfræði var hún samt sem áður merkileg að því leyti að hún var ein fyrsta alvarlega tilraunin til að staðsetja hugræna starfsemi í heilanum. Sálfræðingar, og aðrir vísindamenn sem rannsaka hug og heila, eru nú almennt sammála þeirri hugmynd að einhver sérhæfing eigi sér stað á milli heilasvæða (Aldís Unnur Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind, 2003).

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • Aldís Unnur Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur heili hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
  • Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NJ: Pearson Prentice Hall.