Atviksorð (skammstafað sem ao.) eru smáorð sem beygjast hvorki í falli né í tíðum (óbeygjanleg) og lýsa því oft hvernig, hvar eða hvenær eitthvað gerist.[1] Þau líkjast lýsingarorðum[2] enda hafa atviksorð þá sérstöðu á meðal smáorða að sum atviksorð stigbreytast[1] (eins og ‚aftur - aftar - aftast‘; ‚lengi - lengur - lengst‘; ‚inn - innar - innst‘; ‚vel - betur - best‘), en eru þau þó annars eðlis en lýsingarorð. Fyrir utan stigbreytinguna eru þau óbeygjanleg eins og önnur smáorð. Oft eru atviksorð „stirðnuð“ föll, gamlir aukafallsliðir, og stundum álitamál hvernig greina skuli.[3]

Meginhlutverk atviksorða

breyta

Meginhlutverk atviksorða er að standa með sögnum, lýsingarorðum eða öðrum atviksorðum og skerpa eða að greina nánar um merkingu setningarinnar, eða orðanna sem þau standa með. Atviksorð standa ekki með nafnorðum.

Að standa með sögnum

breyta

Atviksorð standa oftast með sögnum til að þrengja eða tilgreina nánar merkingu þeirra.

  • Hún les illa. (hér stendur atviksorðið 'illa' með sagnorði 'lesa')
  • Þú hefur lesið bókina vel. (hér stendur atviksorðið 'vel' með sagnorðinu 'lesa')
  • Mér gekk vel. (hér stendur atviksorðið 'vel' með sagnorðinu 'ganga')

Að standa með lýsingarorðum

breyta

Atviksorð geta staðið með lýsingarorðum og skerpt eða ákvarðað nánar merkingu þeirra.

  • Hann var óskaplega góður. (hér stendur atviksorðið 'óskaplega' með lýsingarorðinu 'góður')
  • Hún amma mín var óskaplega skemmtileg kona. (hér stendur atviksorðið 'óskaplega' með lýsingarorðinu 'skemmtileg')

standa með öðrum atviksorðum

breyta

Atviksorð geta staðið með öðrum atviksorðum og ákvarðað enn frekar eða kveðið nánar á um merkingu þeirra.

  • Þér gekk ákaflega illa. (hér stendur atviksorðið 'ákaflega' með atviksorðinu 'illa')
  • Þú heyrðir rosalega illa. (hér stendur atviksorðið 'rosalega' með atviksorðinu 'illa')
  • Ég heyri ekki vel. (hér stendur atviksorðið 'ekki' með atviksorðinu 'vel')
  • Mér fannst þú lesa þetta ákaflega illa. (hér stendur atviksorðið 'ákaflega' með atviksorðinu 'illa')

Flokkun atviksorða

breyta

Atviksorð lýsa ekki hlutum en ákveða nánar hvar, hvernig, hvenær, hve oft o.s.frv. eitthvað er eða gerist:

  • Tíðaratviksorð kveða nánar á um tíma sagnarinnar, þ.e. segja til um hve oft eða hvenær eitthvað gerist og standa tíðaratviksorð á eftir sögn í persónuhætti. Tíðaratviksorð geta líka staðið á eftir aðalsögninni eða andlagi hennar.
    aldrei, alltaf, ávallt, áður, bráðum, stundum, lengi, nú, núna, nýlega, seinna, þá, ætíð o.s.frv.
    Stelpan hefur oft farið í bíó.
    Ég get komið strax.
    Hann borðaði matinn áðan.
  • Staðaratviksorð (svarar spurningunni hvar/hvert)
    frammi, fram, heim, heima, hér, hérna, inni, niður, hingað, inn, út, víða, uppi, úti, þar, þarna o.s.frv.
  • Háttaratviksorð (svarar spurningunni hvernig)
    afar, fljótt, hratt, hægt, illa, lítt, mjög, svo, svona, vel, þannig o.s.frv.
  • Spurnaratviksorð (notuð í spurningum)
    hvaðan, hvar, hvenær, hví, hvernig, hve, hvert, hversu.
  • Áhersluatviksorð (standa ávallt með öðru atviksorði eða lýsingarorði og segja til um magn)
    afar, býsna, fremur, frekar, harla, mjög, ofsalega o.s.frv.

Nokkur ao. standa utan allrar flokkunar; t.d. ekki, já, nei, einnig, líka o.s.frv.

Atviksorð verður oftast að forsetningu þegar það stýrir falli en fallstýring er ekki hlutverk atviksorða. Hvorugkyn lýsingarorða verður oft að atviksorði.

Atviksorð og lýsingarorð

breyta

Þótt atviksorðum svipi til lýsingarorða er setningarleg staða þeirra ólík, enda laga atviksorð sig ekki að fallorði en það gera lýsingarorð. Með því að breyta tölu fallorðsins eða kyni má greina hvort vafaorðið lagi sig að fallorðinu eða ekki.

  • Dæmi:
    Setningunni ‚hún málaði vegginn rauðan‘ er breytt í
    hún málaði veggina rauða
    vafaorðið hér (rauðan → rauða) breytist með fallorðinu og er því lýsingarorð.
  • Dæmi:
    Setningunni ‚barnið læddist hljótt‘ er breytt í
    börnin læddust hljótt
    vafaorðið hér (hljótt→ hljótt) breytist ekki og er því atviksorð.

Algengt er að atviksorð hafi endinguna -lega (‚fallega‘, ‚bráðlega‘, ‚seinlega‘). Ef hægt er að setja endinguna -lega á vafaorðið án þess að merking setningarinnar afbakist er það oftast atviksorð.

  • Dæmi:
    Setningunni ‚Seint gengur að komast af stað‘ er breytt í
    Seinlega gengur að komast af stað
    Merking setningarinnar breytist ekki, og því er vafaorðið (‚seint‘) atviksorð.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Hugtakaskýringar - Málfræði
  2. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041103014424/www.ma.is/ismal/malfraedi/obeygdord/default.htm Atviksorð líkjast lýsingarorðum en eru allt annars eðlis.
  3. Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1983

Heimildir

breyta
  • Bjarni Ólafsson (1995). Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning. ISBN 9979-3-0874-5.
  • Björn Guðfinnson (án árs). Íslensk málfræði. Námsgagnastofnun.
  • Þórunn Blöndal (1985). Almenn málfræði. Mál og menning.
  • Atviksorð. Geymt 15 febrúar 2005 í Wayback Machine
  • Fjallað um smáorð.
  • Atviksorð.

Tenglar

breyta