Gullauga

(Endurbeint frá Gullauge)

Gullauga (norska: Gullauge) er kartöfluyrki sem er aðallega ræktað í Norður-Noregi og á Íslandi. Hún er með gulan leiðsluvef sem kemur fram sem gulur hringur þegar kartaflan er skorin í tvennt. Gullaugakartöflur eru fremur smáar, gular, hnöttóttar eða egglaga, með miðlungsdjúp rauðleit augu (sem þær draga nafn sitt af). Kjötið er mjölmikið með tiltölulega hátt þurrefnisinnihald. Þær eru með gott þol gegn Fusarium-rotnun en lítið þol gegn kartöflumyglu.

Gullauga

Gullaugakartöflur bárust líklega til Norður-Noregs með sænskum farandverkamönnum um aldamótin 1900. Á Íslandi voru þær fyrst ræktaðar af Klemenz Kristjánssyni tilraunastjóra á Sámstöðum í Fljótshlíð árið 1931 og bar hann þeim vel söguna. Þær hafa notið mikillar hylli á Íslandi, einkum vegna bragðsins.

Til er úrval úr gullauga með rautt hýði sem kallað er „rautt gullauga“ (eða „Helga“ á Íslandi). Fyrir utan litinn á hýðinu er þetta afbrigði eins og venjulegt gullauga.