Guðrún Jónasson (8. febrúar 1877 - 5. október 1958) var bæjarfulltrúi og verslunareigandi í Reykjavík.

Guðrún fæddist að Felli í Biskupstungum. Foreldrar hennar voru Pétur Einarsson bóndi (1835-1925) og Halla Magnúsdóttir (1833-1903). Hún flutti til Vesturheims með foreldrum sínum árið 1888. Þar kvæntist hún Jónasi Jónassyni (1867-1941) kaupmanni og leikhúseiganda í Winnipeg árið 1898. Þau skildu en Guðrún sneri aftur til Íslands árið 1904 með föður sínum og systurdóttur, Guðrúnu Ívarsdóttur Jónasson (1893–1921), sem hún hafði tekið að sér.

Guðrún stofnaði og rak vefnaðarvöruverslun með Gunnþórunni Halldórsdóttur (1872-1959) að Amtmannsstíg 5 og 5a í Reykjavík. Þær ráku saman heimili á efri hæð hússins og tóku að sér þrjú fósturbörn, þau voru Ásta Guðrún Pjetursdóttir (1919-2006), Jón B. Jónsson (1910-1976) og Sigmar Kristinsson (1909-1978). Guðrún og Gunnþórunn voru lífsförunautar.[1]

Guðrún var fulltrúi í bæjarstjórn Reykjavíkur 1928-1946 og varafulltrúi 1946-1954. Hún sat í barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá stofnun hennar, sem og í framfærslunefnd og brunamálanefnd. Guðrún var félagi í Góðtemplarareglunni, formaður kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands frá stofnun 1930 til dauðadags. Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar frá stofnun 1937-1955. Þá var hún lengi formaður fjáröflunarnefndar Kvennaheimilisins Hallveigarstaða en einnig formaður Kvenréttindafélags Íslands í stutta stund frá 1911-1912. Guðrún lést 5. október 1958 í Reykjavík.

Guðrún hlaut riddarakross fyrir starf sitt sem bæjarfulltrúi árið 1944 og svo stórriddarakross fyrir störf í þágu slysavarna árið 1955.[2]

Heimildir breyta

  1. „Huldukonur“.
  2. „http://www.forseti.is/fálkaorðan/orduhafaskra/“. Forseti.is. Sótt 9. febrúar 2021.
  • Guðrún Jónasson (Kvennasögusafn Íslands)
  • Páll Líndal og Torfi Jónsson. Reykjavík : Bæjar- og borgarfulltrúatal 1836-1986. Reykjavík 1986, bls. 102.
  • Morgunblaðið 14. október 1958, bls. 8. Morgunblaðið 21. október 1958. bls. 2.
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir og Björg Einarsdóttir. Veröld sem ég vil : Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Reykjavík 1993, bls. 114-115.