Ólafur Sívertsen (f. að Núpi í Haukadal, Dal.  25. maí 1790/1791 – d. í Flatey á Breiðafirði 27. maí 1860) var íslenskur prestur, prófastur og alþingismaður.

Ævi og störf breyta

Foreldrar Ólafs voru Sigurður „yngri“ Sigurðsson (1763-1826) bóndi að Núpi í Haukadal, síðar Fjarðarhorni, og kona hans Katrín Þorvaldsdóttir (1765-1819) húsfreyja, fædd á Þingvöllum, Snæ. Bróðir Ólafs var Þorvaldur Sívertsen (1798-1863) umboðsmaður og alþingismaður í Hrappsey á Breiðafirði.

Ólafur lærði einn vetur hjá séra Jónatan Sigurðssyni á Stað í Hrútafirði, síðar tvo vetur hjá séra Páli Hjálmarssyni á Stað á Reykjanesi, hlaut stúdentsréttindi 19. maí 1816; gekk síðan í þjónustu Guðmundar Scheving kaupmanns í Flatey, en var eftir það í þjónustu Eiríks Kúlds, kaupmanns í Flatey. Setti 1821 bú í Flatey og eignaðist um síðir hálfa eyna. Vígðist til Flateyjar í júli 1823. Gegndi prófastsembætti frá 1840. Ólafur var og „heppinn læknir“. Ólafur stofnaði Framfarafélag Flateyjar, 6. okt. 1820, og sat í stjórn Lestrarfélags Barðastrandarsýslu frá 1827. Alþingismaður Barðstrendinga 1853-1857, endurkosinn 1859, en tók ekki við. Veittur verðlaunabikar frá Landbúnaðarfélagi Dana 15. des. 1838 (varðveittur í Þjóðminjasafni). Félagi Hins íslenska Biblíufélags 1844, og riddari af Dannebrog 1. janúar 1859.

„Ólafur var fyrir flestum öðrum prestum um sína daga í flestum greinum, vel að sér, kennimaður góður, búhöldur ágætur, áhugamaður hinn mesti um bókmenningu, öll framfaramál og þjóðmál, skáldmæltur. Hann var aðalmaður í stjórn ársritsins Gests Vestfirðings og á þar nokkrar ritgerðir. Prédikanir eru eftir hann í Skírni tvö kvæði, í viðbæti Messusöngsbókar einn sálmur og í ritum Smáritafélagsins einn sálmur.“

Fjölskylda breyta

Kona Ólafs, 6. okt. 1820, var Jóhanna Friðrika Eyjólfsdóttir (1798-1865) húsfreyja og yfirsetukona, dóttir Eyjólfs Kolbeinssonar (1770-1862) prests á Eyri í Skutulsfirði, og konu hans Önnu Maríu Pétursdóttur Kúld (1772-1832) húsfreyju. Börn þeirra voru, Eiríkur Kúld (1822/1824-1893) prestur á Helgafelli, prófastur á Þingvöllum, síðar Stykkishólmi, og alþingismaður, riddari af Dannebrog 1887, kvæntur Þuríði Sveinbjarardóttur; Katrín (1823-1903) húsfreyja, eiginmaður hennar var Guðmundur Einarssson prófastur á Breiðabólstað á Skógarströnd; Eggert Theodór (1829-1829).

Heimildir breyta

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár, 1948-1976