Guðmundur Árnason

Guðmundur Árnason (fæddur 20. september 1963) er stjórnmálafræðingur og ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu. Hann er fæddur á Eskifirði.

Fjölskylda breyta

Foreldrar hans eru Árni Halldórsson, fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður, og Ragnhildur Kristjánsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri. Eiginkona Guðmundar er Sólveig Berg Emilsdóttir arkitekt, en börn þeirra eru Birna (f. 1992) og Kristján (f. 1999). Systkini Guðmundar eru Kristín Aðalbjörg Árnadóttir sendiherra, Halldór Árnason framkvæmdastjóri, Björn Árnason framkvæmdastjóri, og Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði.

Menntun breyta

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1984, bakkalárprófi í stjórnmálafræði frá Stirling-háskóla í Skotlandi 1989 og meistaraprófi í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex í Englandi 1990. Lokaritgerð hans fjallaði um Norðurlöndin og pólitískan samruna í Evrópu.

Starfsferill breyta

Guðmundur starfaði við sérverkefni fyrir forsætis- og fjármálaráðuneyti 1991, var skipaður deildarstjóri í forsætisráðuneyti í ársbyrjun 1992, skipaður skrifstofustjóri í sama ráðuneyti frá ársbyrjun 1996, var í leyfi þaðan frá 1998 til 2000 er hann starfaði sem ráðgjafi (e. Senior Advisor) við Norræna þróunarsjóðinn í Helsinki (NDF) þar sem hann sinnti einkanlega málefnum Afríku, hóf á ný störf sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti árið 2000, settur ráðuneytistjóri í menntamálaráðuneyti í september 2002, skipaður ráðuneytisstjóri í því ráðuneyti í mars 2003. Hann fór aftur til starfa í forsætisráðuneytinu frá janúar 2009 til loka apríl sama ár. Hann var settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í júni 2009.